Meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða

Mánudaginn 09. febrúar 2004, kl. 15:48:39 (3948)

2004-02-09 15:48:39# 130. lþ. 60.1 fundur 446. mál: #A meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða# (slátrun eldisfisks) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 130. lþ.

[15:48]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst að hv. þm., formaður Samf., Össur Skarphéðinsson, eigi að gera landbrh. viðvart áður en hann flytur svona tímamótaræðu. Hér kom hv. þm. í pontu eiginlega undir því yfirskyni að ræða minni háttar tæknilega lagfæringu á smáfrumvarpi sem sjútvrh. er hér með varðandi sinn hluta af fiskeldismálum, og flutti mikla ræðu um að leggja landbrn. niður. Hún fólst í því að reita hin einstöku verkefni af landbrn., fiskeldismálin yfir til sjútvrh., skólana væntanlega yfir til menntmrn., dýralækna undir viðskrn. ef ég heyrði rétt og svo fram eftir götunum þangað til eiginlega ekkert stóð eftir annað en búvörusamningar, og þá var nú bara eftir að botna vísuna, að leggja landbrn. niður.

Þetta var tímamótaræða, vil ég leyfa mér að segja, og ég geri helst tvenns konar athugasemdir við hana, annars vegar þessa, að vara ekki hæstv. landbrh. við þannig að hann sé hér til svara í þingsalnum þegar fluttar eru tímamótaræður um að leggja hann niður, ef svo má að orði komast. Og í hinu, verð ég nú að segja, er ég ósammála hv. þingmanni að verulegu leyti. Ég hef enga sannfæringu fyrir því endilega að það eigi t.d. að færa rannsóknir og eftirlit með ferskvatnsfiskum og nýtingu vatna og áa yfir í sjútvrn. Mér fyndist það alveg eins geta farið þá yfir í umhvrn. ef það á að fara eitthvað á annað borð, og hefði nú haldið að gamall húsbóndi á þeim bæ léti sér kannski detta í hug að reita eitthvað undir þá annexíu ef það á að fara að lima sundur landbrn. á annað borð. (Gripið fram í: ... yfirdýralæknir núna?) Auk þess er dálítið vandamál, þetta með dýralæknana, já. Hvert á að senda þá ef menn ætla að fara að halda hér eitthvert bögglauppboð (Gripið fram í.) á verkefnum --- já, já, þeir geta svo sem verið til margra hluta nytsamlegir, dýralæknarnir.

En ég verð að segja sem gamall húsbóndi á öðru óðali, þ.e. í landbrn., að ég vil halda hér uppi vörnum fyrir það ráðuneyti og er ósammála hv. þingmanni.