Meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða

Mánudaginn 09. febrúar 2004, kl. 15:57:40 (3952)

2004-02-09 15:57:40# 130. lþ. 60.1 fundur 446. mál: #A meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða# (slátrun eldisfisks) frv., sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 130. lþ.

[15:57]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Þetta voru afskaplega athyglisverðar umræður um verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins og við erum margs fróðari sem á þær hlýddum.

Ég vil hins vegar segja tvennt í framhaldi af þeim. Varðandi spurningu hv. þm. Kristjáns Möllers um gjöldin og tilfærslu þeirra held ég að umsvifin hvað varðar slátrun laxfiska á undanförnum árum hafi ekki verið þess eðlis að hægt sé að telja beinlínis einhvern gjaldapóst til hjá yfirdýralækni, heldur hafi það verk verið unnið meðfram öðrum verkum og þar af leiðandi yrði ekki um það að ræða að þar mundu gjöld lækka þó að tilflutningur yrði á þessu verkefni. Jafnframt mun það auðvitað ráðast af umsvifunum, hversu umsvifamikil slátrunin verður, hvort það er tilefni til þess að gera sérstakar ráðstafanir hjá Fiskistofu hvað þetta varðar. Þá gilda auðvitað um það almenn lög, eins og hv. þm. nefndi.

Hins vegar varðandi það sem hv. þm. Jóhann Ársælsson og Össur Skarphéðinsson nefndu varðandi verkaskiptingu á milli ráðuneytanna er það svo, miðað við þær aðstæður sem við búum við í dag og þær breytingar sem við höfum verið að gera á samstarfinu og kemur m.a. fram í þessu frv., að það er afskaplega gott samstarf á milli ráðuneytanna. Sá samstarfsgrundvöllur er í gegnum fiskeldisnefndina og þar eru mál leyst og málum þannig skipað að það er ekki um neinn tvíverknað að ræða á milli þessara ráðuneyta hvað varðar eftirlit og stjórnun. Ég held að þessu sé, eins og það er í dag, nokkuð vel fyrir komið. (Gripið fram í.)

Hins vegar koma auðvitað önnur ráðuneyti að þessu og sveitarfélögin líka þannig að jafnvel þótt þær hugmyndir þeirra næðu fram að ganga að allt fiskeldi væri í einu ráðuneyti þyrftu samt aðrir aðilar að koma að þessu máli varðandi leyfisveitingar og eftirlit. Þá nefni ég sérstaklega sveitarfélögin, Hollustuvernd, heilbrrn. og Siglingastofnun, þá í tilfelli sjókvíaeldisins.

Sú einföldun sem þeir hafa þarna lagt til mundi ekki leysa öll þau vandamál sem þeir taka til. Ég vil undirstrika það góða samstarf sem um þessi mál ríkir milli landbrn. og sjútvrn. og sú staða sem uppi er í dag kallar þess vegna ekki á neinar breytingar.