Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra

Mánudaginn 09. febrúar 2004, kl. 16:12:05 (3955)

2004-02-09 16:12:05# 130. lþ. 60.3 fundur 552. mál: #A Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra# (gjaldtaka o.fl.) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 130. lþ.

[16:12]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs aðallega til að fylgja eftir eða koma nánar inn á eitt atriði sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði um og taka að öðru leyti að mestu undir málflutning hennar. Ég var að reyna að átta mig hér á ákvæði 2. gr. frv. og kannski sérstaklega skýringum á þeirri grein í greinargerð. Í athugasemd við 2. gr. frv. segir nefnilega, með leyfi forseta:

,,Í 2. gr. frumvarpsins er orðalag 2. mgr. 5. gr. laganna gert skýrara að því er varðar þátttöku ríkisins í kostnaði við sérhæfð hjálpartæki fyrir sjónskerta. Ekki er um efnislega breytingu að ræða.``

Hvernig hljómar svo þessi 2. gr. frv. sem verið er að gera þarna skýrari, þ.e. 2. mgr. 5. gr. laganna? Hún hljóðar svona, aftur með leyfi forseta:

,,Ráðherra skal setja reglugerð um þátttöku ríkisins í kostnaði við sérhæfð hjálpartæki fyrir sjónskerta að höfðu samráði við stofnunina.``

Með leyfi að spyrja, herra forseti: Hvað er verið að gera skýrara með þessu? Hvað var óskýrara en þetta í gildandi lagatexta? Hvers vegna er það þá ekki útskýrt hvað er nákvæmlega verið að gera skýrara með þessu? Er það reglugerðarheimildin? Er það samráðið við stofnunina, eða hvað? Fyrir þann sem les þetta er það nákvæmlega jafnóskýrt og það getur verið. Það er sem sagt í höndum ráðherrans á grundvelli reglugerðarheimildar að útfæra þessar reglur og það eru engar útlistanir gefnar á því hvernig sá praxís er en svona hnýtt aftan við að ekki sé um efnislega breytingu að ræða.

Ég leyfi mér að gagnrýna þessa framsetningu. Ef þarna hafa verið einhverjir hlutir sem voru óskýrir í ákaflega viðkvæmu máli af þessu tagi á að fara yfir það í greinargerð frv. í hverju óskýrleikinn var fólginn, hvaða álitamál voru þar uppi og hvað verið er að skýra með þessari efnisbreytingu. Satt best að segja er hún ekkert ákaflega afdráttarlaus, einfaldlega heimild til að setja reglugerð. Hvað í þeirri reglugerð má svo vera er ekki farið nánar út í. Þetta er ekki að mínu mati alveg eins og á að ganga frá hlutunum ef menn vilja láta þá liggja hér skýrt fyrir. Alveg eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir kom inn á, og liggur í hlutarins eðli, er hér um afar mikilvæga þjónustu að ræða þar sem miklu máli skiptir að þannig sé að málum staðið hvað varðar gjaldtöku og reglusetningu að mönnum sé ekki mismunað og þeim standi þessi þjónusta til boða.

[16:15]

Það er mikill frumskógur eins og menn þekkja hér hvernig það er útfært í reglum og hve hátt hlutfall af kostnaði er greitt í hverju tilviki. Og auðvitað úa og grúa almannatryggingalögin af gríðarlegu innbyrðis misræmi í þeim efnum, eins og hér var líka nefnt, mismun sem er gerður á milli heyrnarskertra og sjónskertra, jafnvel farið í manngreinarálit ef svo má að orði komast eftir því af hvaða völdum sjóntruflanirnar eru. Þetta er alþekkt í almannatryggingalögunum þegar kemur t.d. að endurgreiðslu kostnaðar vegna lyfja og ferða. Þá er farið í mjög mikla flokkun á því hvers eðlis veikindin eru og menn geta sem sagt sætt mjög mismunandi meðferð hvað varðar rétt til endurgreiðslna eftir því hvers eðlis veikindin eru, eftir því í hvaða flokki lyfin eru og þar fram eftir götunum.

Það er eðlilegt að menn staldri við þegar reglugerðarheimildir af þessu tagi eru á ferðinni og þeim mun óheppilegra er að hafa þær óskýrar. Ég verð að segja alveg eins og er að ég átta mig ekki á því af hverju þarf að gera þarna breytingu ef ekkert er á bak við hana annað en þetta sem látið er í veðri vaka, að verið sé að gera einhverja hluti skýrari með þessari breytingu. Ég botna ekki í þessu og bið um nánari útlistanir á því.