Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra

Mánudaginn 09. febrúar 2004, kl. 16:21:52 (3957)

2004-02-09 16:21:52# 130. lþ. 60.3 fundur 552. mál: #A Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra# (gjaldtaka o.fl.) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 130. lþ.

[16:21]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er nú ekki alvarlegt umkvörtunarefni en mér finnst að við svona aðstæður ætti einfaldlega að taka það skýrt fram að markmiðið með lagatextanum sé að afla ótvíræðrar lagastoðar fyrir setningu reglugerðar sem ekki hafi verið til staðar. Það er augljós munur á því að byggt hefur verið á reglum stofnunarinnar en eftirleiðis eigi að ástunda það sem er ábyggilega betra verklag og meira í samræmi við þær lagavenjur og framkvæmdir sem nú er verið að reyna að innleiða alls staðar. Það þarf að búa um þetta með ótvíræðum hætti, allt sem snýr að rétti manna til endurgreiðslu kostnaðar og að hér verði því skipað með reglugerð, útgefinni af ráðherra, og þá á það auðvitað að koma fram.

Það er erfitt að lesa orðalagið í frumvarpstextanum öðruvísi en svo að þetta eigi að lúta að einhverjum nýjum reglum um kostnaðinn sjálfan. Þegar svo ekkert kemur fram í greinargerðinni um að aðalbreytingin sé einfaldlega sú að afla lagaheimildar fyrir því að gefa út reglugerð er von að maður staldri við. Þarna er fyrst og fremst um það að ræða að það hefði mátt skýra betur tilgang frv. að þessu leyti í greinargerðinni og það er mín ábending í raun og veru. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin við því.