Styrkir til foreldra sem ættleiða börn frá útlöndum

Mánudaginn 09. febrúar 2004, kl. 17:04:58 (3968)

2004-02-09 17:04:58# 130. lþ. 60.6 fundur 85. mál: #A styrkir til foreldra sem ættleiða börn frá útlöndum# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 130. lþ.

[17:04]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Það þykir gott að ræða á Alþingi um góðu málin. Þau eru fjöldamörg, þ.e. aukning styrkja til háskóla, að bæta kjör aldraðra og öryrkja (ÖS: Og stofnfjáreigenda.) og alls konar góð mál sem við ræðum hérna á Alþingi. Það mál sem við ræðum hér er eitt af þessum góðu málum og menn eru mjög hlynntir því að sjálfsögðu. Eins og hv. frummælandi Guðrún Ögmundsdóttir sagði í framsöguræðu sinni er þetta mikið tilfinningamál og þar af leiðandi mjög erfitt til umræðu.

Herra forseti. Um það bil 10% para geta ekki átt börn. Fyrir daga almennra fóstureyðinga var yfirleitt hægt að ættleiða börn á Íslandi. Eftir að fóstureyðingar voru leyfðar að miklu leyti þá hefur það ekki verið hægt og íslenskir foreldrar hafa leitað til útlanda til að ættleiða börn.

Af vissri ástæðu þekki ég persónulega nokkuð ítarlega til slíkra mála og reynsla mín var sú að fólk reyndi fyrst náttúrlega að eiga barn sjálft. Síðan rennur upp fyrir þeim sá napri veruleiki að þau geta ekki átt barn sem er afskaplega erfitt. Það er mjög erfitt, herra forseti, tilfinningalega. Fólk leitar því að öðrum leiðum, t.d. glasafrjóvgun og öðru slíku. Það virðist oft vera síðasta úrræðið að ættleiða barn frá útlöndum. Stundum koma þar inn í ákveðnir fordómar og stundum bara ótti við hið óþekkta.

En þegar þannig er komið málum, herra forseti, er fjárhagsleg staða fjölskyldunnar yfirleitt mjög góð. Fólk er búið að vera barnlaust í þrjú, fjögur, fimm ár að lágmarki, stundum í tíu ár. Staða fjölskyldunnar er mjög góð vegna þess að það er dýrt að ala upp barn þrátt fyrir alla styrki sem ríkið veitir. Það kemur niður á lífskjörum fjölskyldunnar. Þau hjón sem hafa verið tvö saman og baslað í lífsbaráttunni eru yfirleitt mjög vel stæð eftir fjögur, fimm ár, búin að greiða niður skuldir o.s.frv. Þetta er reynsla mín. Þar af leiðandi tel ég ekki þörf á slíkum styrkjum almennt. Það er margt annað, herra forseti, sem við getum styrkt í þjóðfélaginu en einmitt þetta. Eins og ég gat um er mikil þörf í þjóðfélaginu fyrir alls konar góð málefni og ég held að þetta komi tiltölulega aftarlega á þeirri meri.

Það er nefnilega þannig að allur sá kostnaður sem verið er að hlaða á ríkið er greiddur af einhverjum. Það er svo merkilegt. Það er eins og menn átti sig ekki á því. Hann er greiddur af skattgreiðendum. Hann er greiddur af öðrum foreldrum. Hann er greiddur af foreldrum sem þurfa að borga mikla skatta og margir hverjir eru tiltölulega illa settir, herra forseti. Hjón með tvö, þrjú börn eru ekkert best sett í þjóðfélaginu í dag. Það er verið að hlaða aukapinklum á þetta fólk, á foreldra annarra barna. Mér finnst það óþarfi, herra forseti.

Við ættum heldur að huga að stöðu fjölskyldufólks og barnafólks yfirleitt og hvort ekki þurfi létta af þeim álögum. Ég vil því fara mjög varlega í að hlaða pinklum á hrossið. Vel getur verið að ekkert muni um einn og einn stein þegar verið er að klyfja hrossið, en þegar byrðin er orðin svo mikil að hrossið er farið að sligast þá þurfum að huga að því hvort við þurfum ekki að vera varkár í því að bæta á.

Nú kann einhver að segja að til séu nógir peningar og ég heyri það iðulega. En þá gerist það merkilega að þegar skattar eru lækkaðir, t.d. á hagnað af sölu eigna, þá stórvex skatturinn, þá stórvex geta þjóðfélagsins til þess að veita peninga í velferðarkerfið. Það er því ekkert mjög sniðugt, herra forseti, að skattleggja meira. Það er ekki víst að það gefi meiri tekjur þannig að það eru ekki til peningar eins og menn vilja. Ef við skattleggjum of mikið þá fara fyrirtækin til útlanda, láta hagnaðinn myndast þar eða eitthvað slíkt.

Öfuga þróun erum við einmitt að sjá núna, þ.e. að fyrirtæki koma til landsins með atvinnustarfsemi af því að skattarnir eru lágir. Þau auka þar með tekjur íslenska ríkisins og það getur þar af leiðandi stutt fleiri góð málefni. Ég vil því vara við þessu.

Svo hafa glæpastarfsemin og kostnaðurinn líka verið nefnd hérna. Ef ríkið fer að borga þetta í auknum mæli þá minnkar kostnaðarvitund þess sem greiðir og þá eru meiri líkur á því að kostnaðurinn, sem er aðallega lögfræðikostnaður, aukist í útlöndum. Kannski getur verið að lögfræðikostnaðurinn sem núna er kominn yfir milljón í útlöndum, með ferðum reyndar sem eru ekki endilega stærsti kostnaðarliðurinn, hafi vaxið svona vegna þess að ríkin eru farin að styrkja þetta, vegna þess að ríkisvaldið er farið að greiða þetta.

Ég man þá tíð að þetta var miklu ódýrara, miklu ódýrara, ekkert í líkingu við þetta þannig að vel getur verið að það að ríkið greiði þetta valdi verðbólgu, þ.e. önnur ríki, skandinavísku ríkin, valdi því að kostnaðurinn vex öllum til óþurftar.

Allt eru þetta mál sem þarf að ræða mjög í hörgul. Ég held, eins og ég gat um, að staða þessara foreldra sé yfirleitt það góð að við ættum að veita peninga til annarra verkefna í landinu en ekki setja milljónir í svona verkefni.