Styrkir til foreldra sem ættleiða börn frá útlöndum

Mánudaginn 09. febrúar 2004, kl. 17:13:39 (3970)

2004-02-09 17:13:39# 130. lþ. 60.6 fundur 85. mál: #A styrkir til foreldra sem ættleiða börn frá útlöndum# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 130. lþ.

[17:13]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekkert hissa á því að hv. þm. reki í rogastans af því að hann heldur að peningarnir komi frá guði almáttugum, ríkissjóði, að ríkissjóður leiti bara til guðs og hann bara bæti allt sem bæta þarf.

Þessir peningar eru að sjálfsögðu greiddir af einhverjum, herra forseti. Það er einhver sem greiðir þetta allt saman. Þess vegna þurfum við að fara mjög varlega með það.

Varðandi það að fólk sem er búið að vera barnlaust í fimm ár hafi ekki verið búið að öngla saman eða létta á skuldum sínum sem nemur 1 millj. þá fer maður nú bara að efast um að það geti tekið á sig þær byrðar sem það að ala upp barn hefur í för með sér fjárhagslega. Það er nefnilega töluverður kostnaður fólginn í því að ala upp barn. Og hafi fólk, tveir vinnandi og ekkert barn, ekki náð því að öngla saman þessum kostnaði, sem er hálft bílverð, á fimm árum þá fer maður nú að efast um ýmislegt fleira. Eins og ég segi þá fylgir nefnilega kostnaður því að ala upp barn og þeir sem ætla að ættleiða þurfa að ráða við þann kostnað.