Svar við fyrirspurn

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 13:33:58 (3982)

2004-02-10 13:33:58# 130. lþ. 61.91 fundur 311#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[13:33]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins vegna svars við fyrirspurn frá mér og hv. þm. Jóni Bjarnasyni sem barst á borð okkar þingmanna í gær. Þetta er svar við fyrirspurn um skattgreiðslur í tengslum við Kárahnjúkavirkjun og vekur svarið satt best að segja nokkra furðu í ljósi fjölmiðlaumfjöllunar um sama mál akkúrat sömu daga. Ein af spurningunum sem lögð er fyrir ráðuneytið er eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Hver eru helstu álitamál og vandamál sem uppi eru eða upp kunna að koma að mati fjármálaráðuneytisins í sambandi við skattalega meðferð mála í fyrrgreindum tilvikum og tengd umsvifum vegna byggingar Kárahnjúkavirkjunar í heild?``

Ráðuneytið svarar, með leyfi forseta:

,,Að mati ráðuneytisins eru engin sérstök álitamál eða vandamál sem upp kunna að koma í sambandi við skattalega meðferð mála vegna Kárahnjúkavirkjunar ...``

Engu að síður er það svo að í fjölmiðlum nákvæmlega sömu daga er verið að kvarta undan því af hálfu forsvarsmanna sveitarfélaga á Héraði að útsvarsgreiðslur skili sér ekki til sveitarfélaganna nema í örlitlum mæli, að örlitlu leyti miðað við umfang launagreiðslna á svæðinu og það sem vera ætti með réttum hætti. Það vekur einnig athygli að ráðuneytið treystir sér ekki til að veita neinar upplýsingar í svari sínu um þær skatttekjur sem þegar eru til komnar vegna launagreiðslna á þessu svæði alveg frá því um mitt sl. sumar. Það er skiljanlegt, herra forseti, úr því að svo er, að t.d. engar útsvarstekjur séu farnar að skila sér til sveitarfélaganna svo að heitið geti. Hvernig stendur á því að fjmrn. skuli eftir sem áður láta eins og allt sé þarna í lagi, eins og engin vandamál séu uppi? Svarið er bersýnilega rangt, herra forseti. Svarið er rangt og það er ámælisvert að fjmrn. skuli reyna að fegra stöðu mála með þessum hætti sem þarna er augljóslega að gerast.

Ég hvet menn til þess að kynna sér t.d. það sem forsvarsmenn sveitarfélaganna og lögmaður þeirra hafa látið frá sér fara í fjölmiðlum um þetta efni undanfarna daga.

Ég fer því fram á það að forseti þingsins hlutist til um það við fjmrn. að við fáum nýtt og rétt svar við fyrirspurninni.