Svar við fyrirspurn

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 13:38:47 (3985)

2004-02-10 13:38:47# 130. lþ. 61.91 fundur 311#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), EKG
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[13:38]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það er eðlilegt ef hv. þm. una ekki svari sem þeir fá að þeir leiti eftir skýringum á því og það var mjög eðlilegt að hv. málshefjandi leitaði eftir því að hæstv. fjmrh. gæti verið viðstaddur. (Gripið fram í.) Nú hafði hæstv. fjmrh. ekki fengið boð um að til stæði að taka upp þessa umræðu. Honum hafði ekki verið gert viðvart um að þessi umræða stæði til og hann hafði lögmætt fjarvistarleyfi frá fundinum í dag og gat þess vegna ekki komið hingað til fundarins. Ég hafði samband við hæstv. fjmrh. nú skömmu fyrir þennan fund þegar mér var ljóst hvað til stæði og það var auðvitað ljóst mál að á þeim skamma tíma gat hann ekki komið til fundarins, enda hefur hann, eins og ég sagði áðan, lögmætt fjarvistarleyfi.

Það er mjög gott að við eigum þess kost í upphafi fundarins að ræða mál af þessu tagi. En það er mikilvægt fyrir niðurstöðu umræðunnar, mjög mikilvægt til þess að umræðan skili einhverju og mjög mikilvægt til þess að umræðan hafi einhvern tilgang, að sá hæstv. ráðherra sem orðin beinast að sé a.m.k. viðstaddur og geti hlýtt á umræðurnar og tekið þátt í þeim.

Virðulegi forseti. Ég tel að hv. 5. þm. Norðaust. hefði átt að gæta þess áður en hann hóf þessa umræðu að hæstv. ráðherra gæti verið hér til staðar til þess að taka þátt í umræðunni. Þetta er efnislegt mál sem þarf væntanlega að fá einhverjar skýringar við eins og hv. þm. ber þetta upp. Það verður ekki gert nema hæstv. ráðherra hafi aðstæður til þess og geti verið hér viðstaddur þegar svona háttar til.