Svar við fyrirspurn

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 13:43:24 (3988)

2004-02-10 13:43:24# 130. lþ. 61.91 fundur 311#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), HBl
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[13:43]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það hefur verið svo um hríð að sveitarstjórnarmenn á Austurlandi, a.m.k. í sumum sveitarfélögum, hafa talið að útsvarstekjur þeirra hafi ekki borist með eðlilegum hætti frá verktökum á Kárahnjúkasvæðinu. Slíkt er að sjálfsögðu óviðunandi og eðlilegt að fylgst sé með því að hin erlendu félög standi við skuldbindingar sínar og fari eftir íslenskum lögum. Mér finnst ástæðulaust hér á Alþingi að gera veður út af því þó að hæstv. fjmrh. sé ekki við. Hann hefur svarað mjög skýrt hvernig þessi mál eru vaxin. Hitt þarf ekki að taka fram, hvorki í hans svari né á Alþingi, að erlendum verktökum ber að vinna og starfa samkvæmt íslenskum lögum og auðvitað er óhjákvæmilegt að því sé fylgt eftir að þeir standi full skil á beingreiðslum sem þeir taka af starfsmönnum sínum, vörslusköttum, eins og önnur fyrirtæki. Ef upp á það vantar er það auðvitað mjög ámælisvert og þarf ekki að hafa um það fleiri orð.