Svar við fyrirspurn

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 13:44:56 (3989)

2004-02-10 13:44:56# 130. lþ. 61.91 fundur 311#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[13:44]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þetta mál, skattgreiðslur í tengslum við byggingu Kárahnjúkavirkjunar, liggur fyrir sem þingmál, þ.e. fyrirspurn okkar hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og við henni er svo komið svar.

En þetta svar stemmir ekki við raunveruleikann og er þess vegna ekki rétt. Í upphafi svarsins segir hæstv. fjmrh., með leyfi forseta:

,,Erlendir starfsmenn við Kárahnjúkavirkjun eru skattskyldir hér á landi af þeim launum sem þeir fá greidd fyrir vinnu sína þar. Gildir þá einu hvort þeir eru starfsmenn samningsverktaka eða undirverktaka, hvort þeir eru ráðnir af verktakanum sjálfum eða af starfsmannaleigum ...``

Þetta er skýrt. Einnig segir í svari hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

,,Að mati ráðuneytisins eru engin sérstök álitamál eða vandamál sem upp kunna að koma í sambandi við skattalega meðferð mála vegna Kárahnjúkavirkjunar umfram það sem upp kann að koma vegna annarra framkvæmda af þessari stærðargráðu.``

Hvað höfum við svo í Fréttablaðinu, virðulegi forseti? Þar stendur, með leyfi forseta:

,,,,Við höfum kvartað við alla þá sem eru málsmetandi á þessu sviði, það er ríkisskattstjóra, skattstjórann í Reykjavík, skattstjórann á Egilsstöðum og nú síðast fjármálaráðherra,`` sagði Jónas Þór Jóhannsson, sveitarstjóri Norður-Héraðs um útsvarsgreiðslur til sveitarfélagsins svo og Fljótsdals vegna erlendra verkamanna við Kárahnjúkavirkjun. Jónas Þór sagði að um 40 manns væru nú á skrá vegna úrsvars. Erlendir verkamenn á svæðinu væru hins vegar sagðir um 500 talsins.``

Þessi kvörtun var komin til fjmrh. áður en þessu svari var dreift. Þessu svari var dreift í þinginu í gær. Þessi viðbrögð og þessi svör hæstv. fjmrh. eru því samkvæmt þessu tvennu röng, a.m.k. eins og það birtist hér. Í fyrsta lagi er það skýlaus krafa þingsins að fá rétt svör og í öðru lagi er þetta mál greinilega í miklum ólestri og væri vert að á því fengist líka þegar í stað lausn.