Svar við fyrirspurn

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 13:47:17 (3990)

2004-02-10 13:47:17# 130. lþ. 61.91 fundur 311#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[13:47]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Þingheimur er í reynd að ræða tvö óskyld mál. Annars vegar með hvaða hætti hæstv. fjmrh. svarar fyrirspurnum gagnvart þinginu og hins vegar um skattgreiðslurnar sjálfar. Þetta er hins vegar ekki utandagskrárumræða um skattgreiðslurnar þó að hv. þm. Margrét Frímannsdóttir hafi boðað það fyrir hönd stjórnarandstöðunnar að eftir slíkri umræðu verði leitað.

Það sem hér um ræðir er að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kvartar, með réttu, undan því með hvaða hætti hæstv. fjmrh. svarar fyrirspurn. Hv. þm. hafa lagt fram tiltekna fyrirspurn um ákveðið efni og í svari hæstv. fjmrh. kemur fram að ekkert vandamál sé í gangi varðandi þetta tiltekna efni. Þó liggur fyrir að sveitarstjórar tveggja sveitarfélaga og lögmenn þeirra hafa leitað til ráðuneytisins um þetta mál og alveg ljóst að vandi er á okkar höndum og ráðuneytisins vegna málsins. En hæstv. fjmrh. gefur rangt svar.

Því miður er þetta ekki eina svarið sem hæstv. fjmrh. leggur með þessum hætti fyrir þingið. Við þingmenn Samf. höfum tveimur sinnum á þessum vetri orðið fyrir því að fá svör sem innihalda ekkert nema loftið eitt, tómið, þegar við höfum lagt fram fullkomlega eðlilegar spurningar.

Virðulegi forseti. Ég vil hins vegar geta þess, þó að hæstv. fjmrh. sé fjarstaddur, að málið kom upp í umræðu í efh.- og viðskn. á sínum tíma. Það var sérstaklega eftir þessu gengið og reyndar komu ákveðin svör frá ráðuneytinu þá. Þá spurðum við einmitt um tvísköttunarsamninga við Ítalíu og fram kom að þeim yrði ekki lokið fyrr en sennilega eftir nokkur ár. Það er því ljóst að hér er eitthvað á ferli sem þarf að taka fast á. Það er alveg ljóst að þær greiðslur sem eiga með réttu að berast eru ekki að berast fullar til íslenskra stjórnvalda. Á því þarf að taka og því að boðað hefur verið í þessari umræðu að óskað verði eftir sérstakri viðræðu við hæstv. fjmrh. um það efni.