Svar við fyrirspurn

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 13:52:28 (3993)

2004-02-10 13:52:28# 130. lþ. 61.91 fundur 311#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[13:52]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það væri fróðlegt að vita í framhjáhlaupi hvort starfið sem hv. þm. Hjálmar Árnason hefur tekið að sér er ólaunað og í sjálfboðavinnu, að vera alveg sérstakur siðameistari yfir umræðum.

Ég tel að umræðan sé á allan hátt á réttum stað. Ég vek athygli þeirra sem hafa tjáð sig um hana að þetta er ekki utandagskrárumræða. Ég er ekki að leggja spurningar fyrir hæstv. fjmrh. Ég er að gera athugasemdir við störf þingsins vegna þess að það eru villandi upplýsingar reiddar fram í svari frá einu af ráðuneytunum.

Að sjálfsögðu bað ég skrifstofu þingsins um að gera hæstv. fjmrh. aðvart um að ég mundi taka þetta hér upp. En úr því að hann er með fjarvist (Gripið fram í.) og getur ekki gegnt sínum þingskyldum, hæstv. ráðherra Árni Mathiesen, bið ég menn að hafa það í huga, ef ég mætti fá frið, að það er að sjálfsögðu jafngilt að taka þetta hér upp, enda hefur forseti þegar ákveðið að koma ábendingunum áfram til hæstv. fjmrh. (Gripið fram í: Af hverju ...?)

Auðvitað geta menn lent í efnisumræðu tengdri álitamálinu þegar það er á annað borð komið upp á borðið.

Ég vissi ekki að hæstv. sjútvrh. væri þetta svona óskaplega viðkvæmt. Ég held að hann ætti að reyna að halda sig við síldina en vera ekki uppi á heiðum.

Herra forseti. Það er alveg augljóst mál að hér eru miklar brotalamir á. Samkvæmt skráningu sveitarfélaganna eru aðeins 40 af 500 erlendum starfsmönnum þar á skrá og farnir að greiða til sveitarfélagsins. Hvar eru hinir 460 skráðir? Hvert borga þeir skatta eða borga þeir enga skatta? Hvernig stendur á því að ráðuneytið getur ekkert sagt í svari sínu um þær tekjur sem þegar hafa til fallið? Er það kannski vegna þess að þær eru lítið farnar að skila sér? Hvar eiga þeir heima, þessir menn sem eru að krókna úr kulda og fá loftin ofan í höfuðið uppi við Kárahnjúka þessa dagana?

Þetta er kannski ekki alveg í eins fínu lagi og ætla mætti af svarinu. Ég endurtek því óskir mínar um að fjmrn. verði beðið um að endurvinna svarið. Það reynir þá á hvort við því verður brugðist. Ef ekki, munum við að sjálfsögðu fylgja málinu eftir.