Aðgerðir gegn fátækt

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 14:36:09 (4004)

2004-02-10 14:36:09# 130. lþ. 61.8 fundur 21. mál: #A aðgerðir gegn fátækt# þál., AtlG
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[14:36]

Atli Gíslason:

Herra forseti. Hér tel ég að hafi verið hreyft afar þörfu máli og ég tek í einu og öllu undir það sem hv. flm. hafði fram að færa. Viðvarandi og vaxandi fátækt samfara alveg ótrúlegri misskiptingu tekna og eigna birtist mér a.m.k. daglega í störfum mínum, m.a. sem lögmanns fyrir Eflingu -- stéttarfélag. Þessi fátækt er í einu orði sagt afar svartur blettur á þjóðfélagi okkar.

Ég vil gera að umtalsefni tvær staðreyndir sem að vísu hefur nokkuð verið fjallað um hér, í fyrsta lagi að atvinnuleysisbætur eru langt undir fátæktarmörkum. Á þeim tekjum lifir enginn. Það þarf ekki einu sinni að ræða það. Atvinnulausir lifa margir hverjir í svartnætti örbirgðar og félagslegra vandamála. Heimurinn hrynur hjá þeim. Þeir eiga ekki fyrir húsnæðislánunum, þeir eiga ekki fyrir neinu. Þeir eiga ekki einu sinni fyrir brýnustu framfærslu.

Hin staðreyndin er sú, og hún er fyrir mér sýnu alvarlegri þótt þetta sé nógu slæmt, að það er talið að 30% einstæðra mæðra hafi framfærslu af tekjum undir framfærslumörkum. Hér hafa skapast það sem ég kalla nánast rússneskar aðstæður í fjölskyldumálum. Fjölskyldur leysast upp og karlarnir kikna undan ábyrgðinni. Þeir fara að heiman og kikna undan ábyrgðinni. Þeir sjá engin önnur úrræði. Þetta fólk hefur vart efni á brýnustu nauðsynjum. Það hefur ekki efni á íþróttum, ekki tómstundum, ekki á listnámi, það hefur ekki efni á neinu. Afleiðingar þessarar fátæktar eru margar og þær eru afdrifaríkar.

Eitt dæmi þessara afleiðinga er brottfall ungmenna úr skólum eftir skyldunámið. Það stendur mér líka nær vegna þess að það eru að meiri hluta strákar sem falla úr skóla menntunarlitlir eða menntunarlausir. Það er ekki eins og þegar ég var að alast upp og maður gat gengið í vinnu. Það var ekkert mál. Maður gat gengið í vinnu og jafnvel í aðra vinnu daginn eftir --- en þeir fá ekki nokkra vinnu. Ég hef reynslu af því í mínu starfi líka, þetta eru ungmenni sem hafa ekki fengið neitt atlæti í æsku og ekki getað sinnt neinu. Þau leiðast út í afbrot og vímuefni og hvar er þá næsti áfangastaður þessara ungmenna? Hvaða opinberu stofnunum kynnast þau næst? Jú, þau kynnast lögreglu, þau kynnast dómstólum og seinast fangelsisyfirvöldum. Stór hluti af verkefnum lögreglunnar í Reykjavík t.d. í dag er að moka í þessa botnlausu hít þar sem við erum að framleiða inn í dómskerfið stöðugt fleiri ungmenni sem eru afleiðingar fátæktarinnar.

Ég ætla að segja það að lokum að við höfum ekki efni á þessari fátækt. Hún er allt of dýr fyrir okkur sem þjóðfélag. Ég vil segja það líka að tíma skýrslugerðar er löngu lokið. Við höfum þetta allt á borðinu. Allt saman er þetta á borðinu. Það er kominn tími aðgerða.