Aðgerðir gegn fátækt

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 14:50:12 (4008)

2004-02-10 14:50:12# 130. lþ. 61.8 fundur 21. mál: #A aðgerðir gegn fátækt# þál., DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[14:50]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Það vantar ekkert viljann hjá ríkisstjórn Íslands. Það er margt gott gert, en góða hluti er alltaf hægt að bæta.

Ég hélt áðan af ræðu hv. þingmanns að hún væri komin í andsvör við hæstv. félmrh. en ekki mig. Það er allt gott og blessað með það. Ég vil bara minna á það, þegar verið er að bera okkur saman við útlönd og sagt að ungt fólk fái ekki vinnu, að víðast hvar erlendis vinnur ungt fólk ekki. Ungt fólk vinnur ekki með skóla, krakkar vinna ekki erlendis. Það eru ekki einu sinni vinnuskólar þar eins og hér.

Svo margt hefur breyst í samfélagi okkar. Hér áður fyrr gátu allir, eins og hv. þm. Atli Gíslason nefndi í jómfrúrræðu sinni áðan, fengið vinnu þegar þeir voru ungir. Það gátum við, held ég, flest sem erum í þessum sal nema kannski ungu mennirnir sem eru hér inni. (Gripið fram í.) Við gátum fengið vinnu í fiski hvenær sem var.

Nú má helst enginn vinna neitt vegna þess að Evrópulöggjöfin gerir ekki ráð fyrir því að unglingar eða börn vinni. Það eru takmörk fyrir því í löggjöfinni hvað ungt fólk má gera. Hér hefur verið boðuð utandagskrárumræða um blaðburðarbörn og vinnuumhverfi þeirra. Ég held að því miður sé atvinnuleysi hér meira en við viljum hafa það en það er miklu minna en annars staðar í Evrópu.