Aðgerðir gegn fátækt

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 15:15:52 (4015)

2004-02-10 15:15:52# 130. lþ. 61.8 fundur 21. mál: #A aðgerðir gegn fátækt# þál., GÖrl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[15:15]

Gunnar Örlygsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að mér sé fyrirgefið að mér hafi láðst að taka eftir einum eða tveimur stjórnarliðum á fundi Alþýðusambands Íslands þar sem efni skýrslunnar Velferð fyrir alla var til umræðu.

Ég vil síður en svo búa til ágreining á milli fátæks fólks á Íslandi og núverandi ríkisstjórnar. Fyrst og fremst benti ég á þá staðreynd að fátækt á Íslandi fer vaxandi.

Þrátt fyrir ummæli hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar um að við Íslendingar hefðum staðið okkur afskaplega vel á síðustu átta árum þá er staðreyndin einfaldlega sú að þetta vandamál hefur aldrei verið stærra en einmitt nú í íslensku samfélagi. (Gripið fram í: Mikið bull er að heyra þetta.) Þetta er bara bláköld staðreynd, virðulegi forseti.

Ég óska þess innilega að fleiri hv. þm. en þeir sem nú sitja í þessum sölum --- þeir eru afskaplega fáir --- muni gefa þessu málefni meiri gaum en gert hefur verið á undanförnum árum.