Aðgerðir gegn fátækt

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 15:18:33 (4017)

2004-02-10 15:18:33# 130. lþ. 61.8 fundur 21. mál: #A aðgerðir gegn fátækt# þál., KHG
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[15:18]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu þáltill. um aðgerðir gegn fátækt. Almennt tel ég þingmálið þarft og tel að það sé lagt fram af góðum hug, af umhyggju fyrir þeim sem í hlut eiga og vilja til að skapa samstöðu um aðgerðir til að draga úr því að menn séu í þeirri stöðu sem fellur undir skilgreiningu þáltill.

Ég vil draga það fram að menn grípa ekki til aðgerða gegn fátækt einvörðungu með sértækum aðgerðum. Þetta er tvíþætt viðfangsefni sem unnið er að, fyrst með almennum aðgerðum og svo með sértækum aðgerðum. Ég tel að á undanförnum árum hafi með almennum aðgerðum í efnahagsmálum, betur en oft áður og kannski betur en nokkru sinni fyrr, tekist að skapa aðstæður fyrir fólk til að komast úr fátækt og til bjargálna. Allar tölur sýna að kaupmáttur hefur vaxið og kjör fólks batnað. Ég held að það þurfi ekki að vitna mikið í hagtölur til að sýna fram á það með óyggjandi rökum að almenn velferð hefur vaxið á undanförnum átta árum. Það eru hinar almennu aðgerðir sem skapað hafa skilyrði til að bæta kjör fólks.

Á hinn bóginn eru aðstæður einstaklinga mismunandi. Þar koma til hinar sértæku aðgerðir. Ég lít svo á að þáltill. vísi til þess viðfangsefnis. Til sannindamerkis um að menn telja, þeir sem flytja málið, að ríkisstjórnin hafi um margt staðið sig vel í almennum aðgerðum þá stóð sá flokkur sem flutningsmenn tillögunnar eru úr fyrir því í síðustu alþingiskosningum að bjóða kjósendum skattalækkanir ef þeir styddu sinn flokk til áhrifa. Þeir mátu stöðuna í atvinnu- og efnahagsmálum þannig að hægt væri að grípa til almennra skattalækkana og bæta kjör fólks með því, ekki með sértækum aðgerðum heldur almennum skattalækkunum. Það er auðvitað stærsta viðurkenningin sem ríkisstjórnin getur fengið, sérstaklega í aðdraganda kosninga um góðan árangur í efnahagsmálum. (Gripið fram í.) Stjórnarandstöðuflokkurinn hefði ekki treyst sér til að bjóða upp á miklar almennar skattalækkanir nema vegna þess að efnahagslífið stendur undir því og atvinnulífið stendur undir því og kjör fólks sem er í atvinnulífinu eru það góð að þau skapa verðmæti til að standa undir því. Það er besta sönnun sem við getum sýnt fólki um að ríkisstjórnin hafi staðið sig vel í þeim efnum, með almennum aðgerðum í efnahagsmálum. Þær duga best til lengri tíma. Sértækar aðgerðir eru ekki varanlegar aðgerðir. Með sértækum aðgerðum leysum við engin vandamál endanlega en þær eru nauðsynlegar.

Á lofti eru ýmis teikn sem eru þess eðlis að taka verður mark á þeim og bregðast við þeim. Skýrasta dæmið, sem hér hefur oftast verið nefnt, er t.d. vaxandi fjöldi einstaklinga sem leita til mæðrastyrksnefndar. Það segir okkur einhverja sögu þó að við vitum ekki nákvæmlega hvað liggur þar á bak við. Við viljum auðvitað ekki vísa því á bug. Við viljum þvert á móti reyna að átta okkur á því hvað veldur þessu. Ég held því að við eigum að skoða þessi mál til hlítar.

Ég er sammála því sem fram kemur í upphafi þáltill., að ríkisstjórnin eigi að grípa til aðgerða til að sporna gegn fátækt og treysta öryggisnet velferðarkerfisins. Það á ríkisstjórnin að gera. Ég tel að ríkisstjórnin sé að gera þetta og hafi verið að gera þetta á undanförnum árum. Hún á að halda áfram á sömu braut. Við ætlumst til þess, sem stöndum að ríkisstjórninni, að hún vinni að þessum markmiðum. Ég er fullviss um að hæstv. félmrh. mun vinna að framgangi þeirra verkefna sem þar eru dregin fram. Ég held að það gæti verið gert með því að hæstv. ráðherra setti niður starfshóp til að skoða umfangið og skoða hvaða leiðir menn hafa til að koma sér úr þeim aðstæðum sem menn geta lent í og skilgreinast undir fátæktarmörkum. Stundum er um að ræða aðstæður sem neyða menn í stöðu sem þeir hafa ekki tök á að ráða við. Stundum er um að ræða aðstæður sem einstaklingur ræður við og enginn fær breytt nema hann sjálfur. Það er breytilegt hvernig málin eru til komin. Þess vegna eru lausnirnar líka breytilegar. Ég held að við eigum að reyna að kortleggja þessa stöðu. Erum við viss um að allir þeir sem teljast undir fátæktarmörkum eigi kost á leið út úr þeirri stöðu? Það held ég að eigi að vera okkar stærsta viðfangsefni, að gera þær breytingar sem þarf til að fólk eigi þess kost að komast út úr stöðunni.

Ég held að það sé mikið samhengi á milli atvinnuleysis og menntunar og þess vegna eigi að skoða hvort atvinnulaust fólk geti ekki menntað sig til nýrra starfa sem það hefur ekki átt tök á að sinna miðað við núverandi stöðu og hvort lánakerfið geri mönnum það ekki kleift að sækja sér aukna menntun og hæfni til annarra starfa en þeirra sem þeir hafa fengist við. Ég held að það þurfi að skoða þetta mjög vandlega. Það kann að vera nauðsynlegt að skoða námslánakerfið og jafnvel það sem nefnt er í fylgiskjali, að taka upp styrki, námsstyrki fyrir einstaklinga til að þeir geti fetað sig úr þeirri stöðu sem þeir eru í og menntað sig til annarra starfa. Við eigum að reyna að ýta undir það eins og hægt er og reyna að sjá til þess að leiðin sé alltaf opin fyrir einstaklinginn.

Ég held líka að við eigum að skoða hvernig sveitarfélögin standa að framfærsluskyldu sinni. Það kann að vera nauðsynlegt að fara yfir það og ýta við sveitarfélögunum. Það er ekki víst að þau hafi sett skilgreiningar sínar með þeim hætti sem ásættanlegt er.

Ég held líka að ríkið þurfi að skoða ákveðna hluti. Ég nefni samþykktir á flokksþingi Framsfl., t.d. varðandi öryrkja. Sumu af því er búið að hrinda í framkvæmd, m.a. að hækka almennar bætur öryrkja miðað við aldur en við erum líka með samþykktir um það að grípa til aðgerða sem mundu gera það að verkum að einstaklingar sem einvörðungu lifa af bótum almannatryggingakerfisins séu ekki að greiða skatta. Það væri mikil bót fyrir hann hóp þjóðfélagsþegna ef við næðum að koma því í framkvæmd.