Aðgerðir gegn fátækt

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 15:26:55 (4018)

2004-02-10 15:26:55# 130. lþ. 61.8 fundur 21. mál: #A aðgerðir gegn fátækt# þál., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[15:26]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst hv. þm. sneiða fram hjá kjarna vandamálsins sem við erum að fjalla um. Staðreyndin er sú að þrátt fyrir góðærið sem við höfum búið við á umliðnum árum frá 1995 og vaxandi þjóðartekjur þá hefur fátækt aukist. Sá hópur sem býr við fátækt hefur stækkað.

Ég man ekki eftir því að hér á árum áður hafi fólk verið í biðröðum eftir matargjöfum. Eins og forseti Íslands sagði fyrir jólin hafa umsvif hjálparstarfs aukist ár frá ári vegna fátæktar og það þrátt fyrir góðærið. Ég man heldur ekki eftir því að það hafi verið aðgengishindranir í heilbrigðiskerfinu eins og læknar halda fram nú. Gjaldtaka í heilbrigðiskerfinu hefur vaxið mjög. Á síðastliðnum 15 árum hefur hlutur heimilanna í heildarútgjöldum til heilbrigðismála hækkað um 159% meðan heildarútgjöldin hafa hækkað um 100%.

Ég man ekki eftir að hafa heyrt það fyrir árið 1995 að fólk hafi ekki getað leyst út lyfin sín eða leitað sér læknishjálpar, sem er staðfest og ekki hægt að mótmæla. Ég man heldur ekki eftir svo löngum biðröðum eftir leiguhúsnæði sem nú eru. Það er þetta sem við erum að mótmæla. Þetta er vandinn sem þarf að taka á vegna þess að það er ekki hægt að mótmæla því að stéttaskipting í þjóðfélaginu hefur vaxið. Fátækir hafa ekki fengið eðlilegan hlut af góðærinu.

Hæstv. félmrh. hefur reyndar viðurkennt það varðandi atvinnulausa. Hann sagði áðan að atvinnulausir hefðu dregist aftur úr og ekki fengið sambærilegan hlut og aðrir. Hann ætlar að reyna að bæta úr ef hann fær til þess stuðning ríkisstjórnarinnar. Það er alveg ljóst hver vandinn er. Mér finnst hv. þm. sneiða nokkuð hjá honum.