Aðgerðir gegn fátækt

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 15:31:28 (4020)

2004-02-10 15:31:28# 130. lþ. 61.8 fundur 21. mál: #A aðgerðir gegn fátækt# þál., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[15:31]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það liggur fyrir í úttektum sem hafa verið gerðar, m.a. af Hagstofunni, að hlutur heimilanna í heildarútgjöldum til heilbrigðismála hefur vaxið. Hann var hlutfallslega miklu minni á árum áður, líka þegar við vorum þó ekki í því góðæri sem við erum í núna.

Ég heyri samt á máli hv. þingmanns að hann hefur ákveðinn skilning á því að það þurfi að taka á málum. Því spyr ég hv. þingmann: Hvað hefur hann gert til þess að fylgja því eftir innan síns flokks, innan stjórnarflokkanna, að tekið verði á þessum málum, t.d. varðandi atvinnulausa?

Það er ekki boðlegt að stórum hópi í þjóðfélaginu, nokkrum þúsundum, sé gert að lifa af innan við 80 þús. kr. á mánuði. Hv. þm. nefndi hér skattgreiðslur lágtekjufólks. Við höfum hvað eftir annað flutt tillögur um að það eigi ekki að greiða skatta af tekjum sem eru undir lágmarkslaunum. Það á að hafa forgang að taka á því máli.

Þessi ríkisstjórn hefur allar götur frá 1995 fyrst og fremst hugsað um fjármagnseigendur í skattamálum. Þeirra hlutur hefur sérstaklega verið réttur af í skattamálum á umliðnum árum. Ég held að hv. þingmaður geti ekki borið á móti því. Mig minnir meira að segja að hann hafi verið í liði með okkur í stjórnarandstöðunni við að gagnrýna að verið væri að draga úr skattgreiðslum fjármagnseigenda. Því ber auðvitað að fagna. En það hefur ekkert verið gert á umliðnum árum til að lækka skattbyrði láglaunafólks, þvert á móti greiðir t.d. fólk sem er bara með lífeyri úr almannatryggingum að meðaltali sem samsvarar einum mánaðarlaunum í skatt á ári. Það er búið að skoða það.