Aðgerðir gegn fátækt

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 15:43:47 (4023)

2004-02-10 15:43:47# 130. lþ. 61.8 fundur 21. mál: #A aðgerðir gegn fátækt# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[15:43]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það sem kom fram hjá hv. þingmanni varðandi viðhorf hans til fátæktar. Ég get alveg gert þau orð að mínum og ég hygg að sérhver stjórnarliði a.m.k. sé tilbúinn að skrifa upp á þau sjónarmið.

Ég vil samt halda til haga þeirri einkennilegu stöðu sem var fyrir síðustu kosningar þegar stjórnarandstaðan gaf í raun ríkisstjórninni 10 í einkunn fyrir stjórn í efnahagsmálum með því að setja fram sem eitt aðalefnahagsprógrammið af sinni hálfu að lækka almenna skatta um tugi milljarða króna. Manni gat skilist að staðan í efnahagsmálum væri svo sterk að ríkissjóður gæti orðið af þessum tekjum án þess að geta hans til að sinna samfélagslegum verkefnum skertist. Þannig t.d. veit ég að hv. þm. sem flytja þetta mál hafa örugglega haft í huga í kosningabaráttunni að setja meiri peninga í ýmsa þætti sem þar eru nefndir til til þess að bæta þá kjör þess fólks sem býr við fátækt. Ég er alveg viss um að þeir hafa gert ráð fyrir því í áætlunum sínum að hækka þau útgjöld um nokkra milljarða króna.

Þá blasir það við að samfylkingarmenn hafa talið stöðu ríkissjóðs það sterka að hægt væri að auka útgjöld til ýmissa bótaflokka um fleiri milljarða króna og samtímis lækka almenna skatta um tugi milljarða króna. Ég verð að segja, herra forseti, að það er ekki hægt að fá hærra í einkunn fyrir stjórn í efnahagsmálum en stjórnarandstaðan gaf ríkisstjórninni fyrir síðustu kosningar.