Aðgerðir gegn fátækt

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 15:47:18 (4025)

2004-02-10 15:47:18# 130. lþ. 61.8 fundur 21. mál: #A aðgerðir gegn fátækt# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[15:47]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Af okkar hálfu eiga skattalækkanir ekki að leiða til óstöðugleika í efnahagsmálum. Við setjum því fyrirvara um að hrinda þeim í framkvæmd ef þær leiða til slíks. Það hefur komið skýrt fram af okkar hálfu og er m.a. tilgreint í stjórnarsáttmála að tengja þetta við kjarasamninga svo að menn geti haft umhverfið undir í einu lagi áður en þeir hrinda þessum miklu áformum í framkvæmd þegar þar að kemur.

Ég segi, herra forseti, fyrir mitt leyti, að ég hef í mínum flokki ekki verið ákafasti talsmaður mikilla skattalækkana, ég vona að ég ljóstri ekki upp miklu þó að ég segi það hér. Ég hef frekar verið á því að fara varlega í skattalækkanir og að við ættum að einbeita okkur a.m.k. fyrsta kastið að því að bæta við fjármagni í ýmsa viðkvæma málaflokka sem full þörf er á að gera og bætir hag einstakra hópa þjóðfélagsins sérstaklega, sem ég tel fulla þörf á.

Ég tek undir það sem fram kom hjá hv. þm. varðandi áhrifin af vaxandi mun á tekjum og eignum. Sú breyting hefur orðið á síðustu tíu árum að miklu fleiri hafa háar tekjur en áður var og miklu fleiri eiga miklar eignir en áður var. Ég tel að þessi breyting, hvort sem hún er góð eða slæm, við skulum ekkert leggja dóm á það, sé m.a. ástæðan fyrir þessum mikla óróleika og leiði til þess að menn álykta sem svo að fátækt fari vaxandi. Það er út af fyrir sig ekki endilega samhengi þar á milli þannig og ég bið menn að hafa allan varann á með ályktanir þarna yfir.

Ég tek undir það sjónarmið að þessi mikla eignasöfnun og vaxandi tekjumunur er mikið áhyggjuefni.