Aðgerðir gegn fátækt

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 15:49:32 (4026)

2004-02-10 15:49:32# 130. lþ. 61.8 fundur 21. mál: #A aðgerðir gegn fátækt# þál., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[15:49]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því sem hv. þm. sagði í raun og veru, að það væri staðfastur ásetningur Framsfl. að sjá til þess að ef Sjálfstfl. þyrfti að standa frammi fyrir því að svíkja annaðhvort kosningaloforðið um skattalækkanir eða yfirlýsingar sínar um ábyrga fjármálastjórn sjái Framsfl. til þess að það síðara verði svikið.

Ég er eins og hv. þm. ekkert óskaplega mikill skattalækkunarmaður og finnst að menn eigi að fara varlega í því efni. Almennt fannst mér flestir fara fulldjarft fram fyrir síðustu kosningar hvað loforðin af því tagi varðar. Ég vona að vitið verði framar þegar kemur að því að taka endanlegar ákvarðanir og þær verði teknar einmitt með þau markmið í huga sem við höfum verið að ræða, að nú sé komið að því að menn taki myndarlega á félagslega þættinum í landinu. Annað er okkur ekki sæmandi í þeim efnahagslegu aðstæðum sem nú eru.

Það er mikill vandi að stjórna svona auðugu þjóðfélagi. Við getum ekki bara gefið okkur að það sé nóg að fólk hafi í sig og á í þjóðfélaginu í dag. Þjóðfélagið er orðið auðugra en það. Við verðum að setja kröfurnar ofar fyrir þá sem minna mega sín.