Aðgerðir gegn fátækt

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 16:28:09 (4036)

2004-02-10 16:28:09# 130. lþ. 61.8 fundur 21. mál: #A aðgerðir gegn fátækt# þál., BJJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[16:28]

Birkir J. Jónsson (andsvar):

Frú forseti. Það er staðreynd að það er verið að auka framlög til heilbrigðis- og tryggingamála um 9--10 milljarða á árabilinu 2003--2004 þannig að við erum ekki að tala um niðurskurð til velferðarmála í tíð þessarar ríkisstjórnar. Við erum að stórauka framboð af húsnæðisrými fyrir fatlaða. Það á að byggja ný sambýli á árinu 2004 og verja til þess miklum peningum. Það er verið að gera heilmikið í velferðarmálunum. Um það er ekki deilt.

En þegar menn eru á móti því að ríkisstofnunum, hverjar svo sem þær eru, hvort sem það eru almenn ráðuneyti, heilbrigðisstofnanir, menntastofnanir eða aðrar slíkar, er gert að hagræða örlítið í rekstri sínum --- ég segi örlítið, sem nemur 1--2% af veltu --- finnst mér það mjög eðlileg krafa. Mér finnst mjög eðlilegt að hið opinbera láti stofnanir sínar sýna aðhald í rekstri, alveg sama hvort þær eru í utanríkisþjónustunni, velferðarþjónustunni eða opinberri stjórnsýslu. Og ég held að við sem ábyrgir stjórnmálamenn hljótum að vera sammála um að okkur beri að sýna aðhald í ríkisrekstri. Þar er verið að fara með fjármuni skattborgaranna. Og ég segi það enn og aftur, það er verið að verja núna 9--10 milljörðum meira af fé skattborgaranna til heilbrigðis- og velferðarmála. Og ég er því hlynntur. Ég er því hlynntur.

Ég segi því enn og aftur: Það er ekki verið að skera niður til heilbrigðis- og velferðarmála í tíð núverandi ríkisstjórnar, heldur hafa framlög til heilbrigðis- og velferðarmála aldrei aukist eins mikið og í tíð núverandi ríkisstjórnar.