Aðgerðir gegn fátækt

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 16:30:05 (4037)

2004-02-10 16:30:05# 130. lþ. 61.8 fundur 21. mál: #A aðgerðir gegn fátækt# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[16:30]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. 1. flm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir þetta þingmál og meðflutningsmönnum hennar. Það er mjög brýnt að vekja upp umræðu um fátækt á Íslandi. Í þáltill. segir m.a., með leyfi forseta.

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að grípa til aðgerða til að sporna gegn fátækt og treysta öryggisnet velferðarkerfisins. Í því skyni verði skipuð nefnd með aðild Sambands íslenskra sveitarfélaga og heildarsamtaka launafólks. Nefndin skal gera tillögur til úrbóta sem miði við að enginn hafi sér til framfærslu tekjur undir skilgreindum framfærslumörkum.``

Ég hef hlustað eftir rökum í þessari umræðu hér í dag og það sem mér finnst skipta miklu máli er hvort menn telja þetta yfirleitt vera gerlegt. Er hægt að útrýma fátækt? Ég tel svo vera. Þess vegna tel ég þessa tillögu fullkomlega raunhæfa. Ég er ekki að öllu leyti sammála þeim ábendingum sem fram koma um leiðir í því efni. En ég tel þetta gerlegt verkefni vegna þess að fátækt er afleiðing skipulagskreppu. Fátækt er mannanna verk. Hún er afleiðing skipulagskreppu og er nátengd öðru þjóðfélagsmeini sem er atvinnuleysi. Einnig atvinnuleysi er skipulagskreppa.

Það var þannig nánast allan lýðveldistímann, allt fram á tíunda áratuginn, að ríkisstjórnir á Íslandi lögðu höfuðkapp á að bægja atvinnuleysi frá. Þetta tókst bærilega. Að undanskildum síðustu árum sjöunda áratugarins þegar síldin brást tókst að halda atvinnustiginu í landinu mjög háu. Atvinnustigið var allflest árin vel innan við 1% og þá bundið við tímabundnar aðstæður í sjávarútvegi. Síðan verður breyting á þessu í upphafi tíunda áratugarins. Allar götur síðan hefur atvinnuleysi verið viðvarandi.

Skyldu menn gera sér grein fyrir því að í dag, 10. febrúar, eru 5.636 einstaklingar atvinnulausir, 5.636? Að sjálfsögðu er hópurinn miklu stærri sem þessi vandi tekur til vegna þess að þar erum við að tala um fjölskyldur fólks einnig. Aðeins á höfuðborgarsvæðinu, sé litið til þess, eru 1.929 karlar atvinnulausir og 1.676 konur. Hvernig skyldi ríkisstjórnin bregðast við þessum vanda? Hún er að beita sér fyrir því að fólki verði sagt upp störfum. Hún er að beita sér fyrir því að á einum stærsta vinnustað landsins, Landspítala -- háskólasjúkrahúsi, er verið að draga saman ræstingar um 10% og segja upp láglaunakonum. Fyrir nokkrum dögum var okkur sagt að 50 starfsmönnum hefði verið sagt upp á þessum vinnustað einum. (Gripið fram í: 36.) 36 segir hv. þm. Í farvatninu eru um 200 stöðugildi eða á þriðja hundrað stöðugildi. Það er búið að rýra kjörin hjá á sjötta hundrað manns. Um hvað snýst það mál? Það snýst nefnilega líka um fátækt.

Þegar á það er bent réttilega að nauðsynlegt sé að hækka lægstu laun --- ég tek alveg undir það --- þá þarf að spyrja einnig um hitt: Hvernig er að vera láglaunamaður á Íslandi í dag borið saman við samsvarandi stöðu fyrir, við skulum segja, 15--20 árum? Ætli það sé ekki svipað ef við lítum til launanna einna. En hvernig er að vera veikur láglaunamaður í dag samanborið við það sem gerðist fyrir 15--20 árum? Hvernig er að vera láglaunamaður í húsnæðisleit í dag miðað við það sem gerðist fyrir 15--20 árum? Það er hér sem við erum farin að ræða um ábyrgð stjórnvalda. Og það er hér sem við erum farin að tala um Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn og þeirra verk.

Ég hef verið að hlusta eftir rökum sem fram hafa komið eða málflutningi talsmanna ríkisstjórnarflokkanna og mig rekur í rogastans. Það er talað um ábyrga fjármálastefnu. Ég held að margir hafi á tilfinningunni að þeir miklu fjármunir sem streyma í framkvæmdir á Austurlandi séu tilkomnir utan úr himingeimnum. Þetta er allt lánsfé. Þetta er allt saman lánsfé. Er þetta ábyrg stefna? Og hvað um öll hin dýru loforð sem gefin voru um atvinnustigið? Það var upplýst m.a. í umræðu hér í dag að í stað þess að 80% starfsmanna við Kárahnjúka ættu að vera Íslendingar og 20% erlent aðkomufólk þá er hlutfallið öfugt.

Ég kem því ekki auga á þessa miklu ábyrgð gagnvart atvinnustiginu í landinu, gagnvart fjármálastjórninni, gagnvart aðgerðum stjórnvalda og yfirleitt þegar litið er til aðgerða stjórnvalda. Ég kem ekki auga á hana.

Mér finnst að við þurfum að ræða það hér að hækka lægstu launin. Það er alveg rétt. Ég tek undir það. Það á að beina áskorunum til launamarkaðarins, til atvinnurekenda á einkamarkaði og opinberum markaði, í sveitarfélögum og hjá ríkinu um að hækka lægstu launin. En hver er ábyrgð stjórnvalda? Það er sú ábyrgð sem er til umræðu hér í dag. Hvað er verið að gera í húsnæðismálum? Hvað er verið að gera í heilbrigðismálum? Hvað er verið að gera almennt í velferðarmálum og hver hefur þróunin verið á undangengnum árum? Ég fullyrði að það er erfiðara að afla húsnæðis í dag. Það er erfiðara að vera sjúkur og launalítill í dag en fyrir fáeinum árum. Ég velkist ekki í vafa um það. Ég auglýsi eftir viðbrögðum hinna stoltu talsmanna ríkisstjórnarinnar við röksemdum á borð við þær sem ég hér hef borið fram.