Aðgerðir gegn fátækt

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 16:46:27 (4042)

2004-02-10 16:46:27# 130. lþ. 61.8 fundur 21. mál: #A aðgerðir gegn fátækt# þál., Flm. JóhS
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[16:46]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka þær umræður sem hér hafa orðið um þetta mál um aðgerðir gegn fátækt. Þær hafa staðið í þó nokkurn tíma og er það auðvitað skiljanlegt miðað við það mál sem hér er á dagskrá. Fulltrúar allra flokka hafa tekið mjög virkan þátt í þessari umræðu utan þingmenn Sjálfstfl. og fjarvera þeirra í þingsal við þessa umræðu hefur vissulega vakið athygli. Hv. 5. þm. Suðurk. var hér með stutta viðveru og smáandsvar og það var eina innlegg sjálfstæðismanna.

Framsóknarmennirnir hafa þó haft manndóm í sér til að taka þátt í umræðunni og það hefur vissulega örlað á þeim skilningi hjá þingmönnum Framsóknar að taka þurfi á þessum málum. En framsóknarmenn átta sig aldrei á því að þeir eru ekki í góðum félagsskap. Ég þekkti það þegar ég var í ríkisstjórn með sjálfstæðismönnum að þeir eru ekki góður félagsskapur, og það er kannski meginástæðan fyrir því að framsóknarmenn koma engum málum fram, heldur láta sjálfstæðismennina berja á sér og valta yfir sig í hverju málinu á fætur öðru. Þeir hafa ekki enn komið fram hækkun á atvinnuleysisbótum sem er áhugamál hæstv. félmrh. miðað við málflutning hans í dag. (SJS: Þetta er sjálfskaparvíti hjá þeim.) Auðvitað er þetta sjálfskaparvíti og vonandi læra þeir af þessu.

Það sem þó hefur komið fram á þessum degi er eins og ég sagði að hæstv. félmrh. telur að hækka þurfi atvinnuleysisbæturnar. Við skulum þá vona að hann komi því í framkvæmd. Hann talar líka um tekjutengingu á atvinnuleysisbætur sem ég held að sé hið besta mál. Síðan er boðuð þessi skýrsla um stöðu fátækra og úrbætur í því efni. Ég vænti þess að það verði þá á næstu dögum sem forsrh. skilar þessari skýrslu inn í þingið þannig að við getum tekið góða umræðu um málið. Ekki er vanþörf á.

Það er staðreynd sem ekki er hægt að mótmæla að veruleg gliðnun hefur orðið í samfélaginu á undanförnum árum. Samhjálp er á undanhaldi, þeir ríku hafa orðið ríkari og þeir fátæku fátækari. Það er bara sú staða sem við stöndum frammi fyrir.

Ég vitnaði í norrænan samanburð áðan. Þar kemur í ljós að fátækir eru hlutfallslega flestir hér á Íslandi, við erum að tala um 15 þús. manns sem búa við fátækt og við erum að tala um 5--6 þús. manns sem eru atvinnulausir. Þar á meðal hefur hlutur unga fólksins í atvinnuleysinu vaxið verulega. Það er ekkert hægt að bíða með þetta mál. Daglega hringir í mig fólk eða kemur, fólk sem býr við mikið öryggisleysi, hefur gefist upp raunverulega, á ekki fyrir mat eða lyfjum. Það er ekki svona samfélag sem við viljum sjá á Íslandi, að fólk þurfi að vera í biðröðum eftir mat, sé búið með tekjur sínar eftir fyrstu tíu dagana af mánuðinum, lifi á yfirdráttarlánum, leiti til hjálparstofnana eða eftir fjárhagsaðstoð. Það er ekki svona samfélag sem við eigum að þurfa að búa þjóðfélagsþegnum okkar. Við erum ríkt land en hér er mikil misskipting, það er bara staðreyndin sem við stöndum frammi fyrir. Tekjuskiptingin er röng í þessu þjóðfélagi og það er alveg ljóst að á undanförnum árum hefur ekki gengið á betri veginn í þessu efni.

Það er satt sem hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði áðan. Ég man ekki eftir að hafa orðið vitni að fólki í biðröðum eftir mat eða að það gæti ekki leyst út lyfin sín eða leitað læknishjálpar. Staðreyndin er sú að þetta hefur stuðlað að verulegri stéttaskiptingu í þjóðfélaginu. Ég hvet framsóknarmenn til þess að reka á eftir forsrh. með að skila af sér þessari skýrslu inn í þingið þannig að við getum undið okkur í þær lagabreytingar sem þarf að gera til þess að tryggja betur stöðu fátæks fólks.

Töluvert hefur verið vitnað í skýrslu ASÍ um velferðarkerfið sem var gefin út fyrir síðustu kosningar. Þar hafa þeir sett fram tillögur um bráðaaðgerðir. Það hefur kannski ekki mikið verið farið yfir þær í þessari umræðu en þar tala þeir um að ekki sé hægt að bíða með húsnæðismálin. Þeir leggja til að húsaleiga verði niðurgreidd umfram það sem nú er og framboð á félagslegu húsnæði aukið. Þá erum við að tala um framboð á leiguíbúðum sem beri ekki allt að 4,9% vexti, eða 3,5% í sumum tilvikum. Það var sátt í þjóðfélaginu um það, líka þegar við vorum á tímum niðursveiflu í atvinnulífinu, að hafa vexti á húsnæðislánum til leiguíbúða ekki hærri en 1%.

Þeir hjá ASÍ leggja til, sem hefur verið komið hér inn á varðandi menntunarmálin, að sérstaklega þurfi að koma til móts við ungt fólk úr tekjuminni fjölskyldum þannig að það geti stundað nám til jafns við aðra. Staðreyndin er sú að við erum að sigla í að það er ekki jafnt aðgengi, hvorki að heilbrigðiskerfinu né menntakerfinu, þótt allir hafi þó viljað standa að því og sátt verið um það. Þetta er bara staðreynd sem við stöndum frammi fyrir.

Þeir tala um að draga þurfi úr kostnaði sjúklinga vegna lyfja og heilbrigðisþjónustu. Hann er orðinn verulegur, er orðinn aðgengishindrun. Sjúklingar geta ekki leitað sér læknishjálpar eða leyst út lyf.

Þeir tala um hækkun á barnabótum. Það er alveg ljóst að þessi ríkisstjórn hefur skert þær í sinni tíð. Árið 1995 voru barnabætur greiddar með börnum til 16 ára aldurs, þær voru ótekjutengdar og voru hlutfallslega hærri en þær eru núna, og vantar verulega á.

Það er talað um að sveitarfélögin dragi úr gjaldtöku vegna skólaþjónustu og tómstunda og geri börnum kleift að stunda íþróttir og æskulýðsstarf án tillits til efnahags foreldra. Það er náttúrlega ekki boðlegt í þjóðfélagi okkar að börnum sé svo mismunað að þau geti ekki stundað íþróttir og æskulýðsstörf til jafns við aðra vegna fátæktar.

Þeir leggja til, sem hlýtur að koma til skoðunar, að lægstu samsettu bætur öryrkja verði a.m.k. 110 þús. á mánuði auk barnalífeyris.

Þeir telja að draga þurfi úr álögum hins opinbera á húsnæði eldri borgara og síðan er lagt til að atvinnuleysisbætur verði nú þegar hækkaðar í 93 þús. kr. á mánuði.

Ég vil bæta því við þessa upptalningu sem hér hefur verið lögð fram af ASÍ að það verður að taka á skattamálum lágtekjufólks. Það er ekki hægt að búa við það að lágtekjufólk sem er bara á lágmarkslaunum, á strípuðum töxtum, og öryrkjar greiði svo mikinn skatt sem þeir gera. Á árinu 2001 --- það er sennilega orðið mun hærra núna --- greiddu þeir í skatta til samfélagsins sem nam einum milljarði kr. Það er óverjandi að það skuli vera hægt að taka 8--15 þús. kr. á mánuði af strípuðum bótum þeirra sem eru bara á strípuðum töxtum, fólks sem er búið með peningana kannski 10. eða 12. hvers mánaðar og á þá ekki fyrir mat. Hvernig er hægt að vera að taka skatta af slíkum launum eða bótum? Þessi ríkisstjórn hefur á valdaferli sínum, frá 1995, verið að bæta hag þeirra sem eiga peningana, verið að lækka skatta á fjármagnseigendur. Hvernig er þetta hægt?

Ég tel að þetta sé smánarblettur og skömm í þjóðfélaginu sem við ættum að hafa burði í okkur í þessum þingsölum til að leiðrétta.

Virðulegi forseti. Ég þarf út af fyrir sig ekki að lengja umræðuna. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur orðið. Ég vona að hún geti orðið lóð á þær vogarskálar að á þessum málum verði tekið. Við getum ekki búið við það lengur að bjóða atvinnulausum upp á innan við 80 þús. kr. tekjur á mánuði, það er eiginlega brýnasta verkefnið sem við þurfum að taka á.

Líka það málefni sem 6. þm. Reykv. s., Jónína Bjartmarz, nefndi er orðið mjög mikið vandamál, þ.e. einhleypir karlar sem hafa lent í skilnaði og eiga í erfiðleikum með meðlög og húsnæðismál. Þessi hópur er sérstaklega nefndur í þessum bráðavandaaðgerðum sem ASÍ talar um. Þeir nefna að veita þurfi húsleigubætur vegna leigu á herbergjum, styrkja fjárhagsaðstöðu þeirra feðra sem eru það illa staddir fjárhagslega að þeir eiga erfitt með að umgangast börn sín með sómasamlegum hætti. Þetta er vaxandi vandamál og stækkandi hópur og sérkennilegt til þess að vita að þetta er stærsti hópurinn sem fær t.d. fjárhagsaðstoð hjá Reykjavíkurborg. Það er lagt til að veita þeim feðrum sem eru með sameiginlegt forræði aukna möguleika á félagslegri aðstoð, t.d. í formi leiguhúsnæðis og ráðgjafar.

Síðan erum við auðvitað með vanda einstæðra foreldra almennt, við erum með vanda tekjulágra barnmargra fjölskyldna og síðan hóp öryrkja og hóp aldraðra. Margir aldraðir hafa það ágætt, það skal ekkert úr því dregið. En það er líka allt of stór hópur sem hefur það skítt, sem hefur lítið sem ekkert úr lífeyrissjóðum, sumir ekki neitt, og vanda þess fólks þurfum við að skoða.

Vissulega ber að fagna því sem þó var gert af hálfu þessarar ríkisstjórnar varðandi vandamál ungra öryrkja. Það var ágætt framtak en það þurfti líka verulegan þrýsting frá Öryrkjabandalaginu til þess að skila því í höfn. Og það vita allir að atvinnulausir, öryrkjar og aldraðir hafa ekki fengið sambærilegan skerf af því sem hefur verið til skiptanna. Stjórnarflokkarnir draga stundum upp ranga mynd þegar þeir tala um kaupmáttaraukningu hjá öryrkjum og öldruðum og nefna þar háar tölur. Það er aðeins lítill hópur. Þeir sem eru allra verst settir, kannski 3% öryrkja, eitthvað svoleiðis, hafa bara 93--94 þús. kr. úr almannatryggingakerfinu. Kaupmáttur þeirra hefur hækkað heldur meira og kannski til jafns við aðra í þjóðfélaginu. En aðrir öryrkjar eða ellilífeyrisþegar hafa ekki búið við það að fá sambærilegan skerf og aðrir sem betur eru settir í okkar þjóðfélagi.

Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu. Ég heiti því að við í stjórnarandstöðunni --- ég er alveg sannfærð um að við höfum stuðning vinstri grænna og frjálslyndra til að ýta á eftir því að gripið verði til aðgerða til þess að taka á bráðavanda þessa fólks, fólksins sem er að gefast upp í þessu góða þjóðfélagi sem við lifum í af því að það hefur verið sett til hliðar og ríkisstjórnin hefur ekki hugsað um það eins og hún á að gera. Þetta eru meðbræður okkar og -systur sem á að hjálpa til þess að geta lifað sómasamlegu lífi, geta staðið upprétt í þjóðfélaginu en þurfa ekki sífellt að bogna undan því oki sem á það er lagt. Þetta er fólk oft sem vinnur fullan vinnudag en á samt ekki fyrir brýnustu framfærslunni.

Þess vegna vona ég að sú umræða sem hér hefur orðið í dag geti orðið til þess að við sameinumst sem allra fyrst í því að taka á þessu máli og við munum ýta fast á eftir því að þessi skýrsla um stöðu fátækra komi inn í þingið og við fáum vonandi úrbætur í málefnum fátækra eins og félmrh. var að boða að forsrh. mundi leggja fram á næstu dögum.