Búvöruframleiðslan og stuðningur við byggð í sveitum

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 18:10:42 (4052)

2004-02-10 18:10:42# 130. lþ. 61.16 fundur 166. mál: #A búvöruframleiðslan og stuðningur við byggð í sveitum# þál., JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[18:10]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Sú till. til þál. sem við hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs flytjum, um nýjan grundvöll búvöruframleiðslunnar og stuðning við byggð í sveitum, boðar í sjálfu sér nýja hugmyndafræði og nýja hugsun í nýtingu landsins gæða vítt og breitt um landið. Hingað til höfum við verið bundin af magnframleiðslu á mjólk og kjöti, bæði af nautgripum, sauðfé, svínum og alifuglum. Á þetta hefur að stórum hluta verið litið sem hina eiginlegu landbúnaðarframleiðslu en þar eru tímarnir orðnir mjög breyttir.

Því er mikilvægt að aðlaga stefnuna í landbúnaðarmálum, í nýtingu landsins gæða, nýjum áherslum, nýjum viðmiðunum og nýjum gildum. Það er gert í þessari till. til þál. af hálfu okkar þingmanna Vinstri grænna. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að kjósa nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka til að vera stjórnvöldum og bændasamtökunum til samstarfs og ráðuneytis við mótun nýs grundvallar fyrir búvöruframleiðsluna og gera tillögur um ráðstafanir til að treysta byggð í sveitum. Sérstaklega verði hugað að því hvernig útfæra megi búsetutengdan grunnstuðning sem hluta af stuðningi við landbúnað og búsetu í sveitum. Markmiðið væri að finna leiðir til fjölbreyttari nýsköpunar og þróunar í atvinnulífi strjálbýlisins, skapa meira jafnræði milli greina, undirbúa nauðsynlegar breytingar vegna nýrra alþjóðasamninga á sviði landbúnaðarmála og taka á vandamálum núverandi landbúnaðarkerfis.``

Meginmarkmiðið sem við leggjum upp með er ný framtíðarsýn í landbúnaði. Það er einmitt vert að undirstrika að byggð og búseta og samfélög vítt og breitt um landið eru í sjálfu sér auðlegð. Auðurinn er ekki bara fólginn í kílóum af kjöti eða í krónum og aurum heldur er byggð og samfélag auðlegð sem er hornsteinn samfélags okkar. Ef við brjótum byggðina niður mun halla undan fæti fyrir þjóðfélagi okkar í heild. Þegar við lítum á þetta mál þá skoðum við það í hinu stóra samhengi. Hvers konar Ísland viljum við byggja? Hvers konar samfélag viljum við eiga? Hvernig viljum við bæði umgangast og nýta náttúruauðlindir okkar til skemmri og lengri tíma?

Í auðlindum landsins eigum við miklu víðtækari möguleika en við höfum til þessa tíma talið, sé miðað við þátttöku ríkisins í að styðja verndun og nýtingu þessara auðlinda sem hefur að langmestu leyti verið bundin við hina svokölluðu hefðbundnu landbúnaðarframleiðslu.

Okkur hefur verið tíðrætt um ferðaþjónustuna. Ferðaþjónustan á Íslandi býður upp á gríðarlega möguleika. Samkvæmt þeim áætlunum sem hafa legið fyrir um þróun ferðaþjónustu hér á landi af hálfu Samtaka ferðaþjónustunnar er gert ráð fyrir því að innan tíu ára muni um milljón ferðamenn heimsækja þetta land. Fyrir tveimur árum komu milli 200 og 300 þúsund, ef ég man rétt, ferðamenn til landsins. Í áætlunum er gert ráð fyrir að innan tíu ára verði það yfir milljón ferðamenn. Það að taka á móti svo stórum hóp, veita þjónustu og byggja upp atvinnuveginn, svo hratt vaxandi atvinnuveg, kostar sitt. Það er mikilvægt að á því sé tekið og þar skiptir búsetan, meðferð og nýting á auðlindunum, hinum dreifðu byggðum og náttúrunni, gríðarlega miklu máli.

Þetta er mjög nálægt okkur. Ég get vísað til þess, virðulegi forseti, að samkvæmt fréttum sem ég hef frá greiningardeild Búnaðarbankans er talið að erlendum ferðamönnum hafi fjölgað um 40 þúsund á árinu 2003 frá árinu á undan og hafi verið um 320 þúsund á árinu 2003. Árið 2002 skilaði ferðaþjónustan um 37 milljörðum kr. í gjaldeyristekjur en áætlað er að á árinu 2003 hafi gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu aukist um 5 milljarða kr., bara á einu ári.

Við sjáum hversu hratt þetta vex í samanburði við önnur lönd sem hafa jafnvel mátt þola samdrátt í ferðaþjónustu. Af því sjáum við hve gríðarlegt forskot og sterka stöðu við höfum í þróun ferðaþjónustu. En land sem ekki er byggt og náttúra sem ekki er hirt er hins vegar takmarkaðs virði í þróun og eflingu þessa atvinnuvegar.

Við höfum áður á þinginu rætt um Árneshrepp á Ströndum. Byggð stendur þar höllum fæti. Á síðasta ári fóru mörg þúsund ferðamanna norður um Strandir til að sækja þá menningar- og náttúruauðlegð heim. Það yrði ekki gert með sama hætti ef byggð hefði þar lagst af. Hugsið ykkur hve mikil auðlegð er í því fyrir þetta fólk, fyrir okkur og þennan fjölda manns sem sækir þetta landsvæði heim, að það sé setið og nýtt? Er ekki eðlilegt að íbúar þessa svæðis fái metið að verðleikum það starf og hlutverk sem þeir gegna í að gera þessa auðlind aðgengilega fyrir alla landsmenn? Svo mætti áfram telja, virðulegi forseti.

Landbn. fékk í dag ljómandi góða kynningu á starfsemi Nytjalands sem er að gera kort af landinu, náttúru og auðlindum þar, sem sýnir að við eigum grunn til að byggja á til að koma inn í þetta mál á fjölþættan hátt.

Því miður er einn ljóður á stefnu eða stefnuleysi landbrh., virðulegi forseti. Það er sala jarða, ríkisjarða. Það að selja náttúruauðlindirnar sem byggðirnar byggja framtíð sína og stöðu á með skipulagslausum hætti er til stórvansa. Ég skora á hæstv. landbrh. að endurskoða rækilega stefnu sína í jarðasölumálum.