Réttindi sjúklinga

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 18:57:58 (4059)

2004-02-10 18:57:58# 130. lþ. 61.17 fundur 202. mál: #A réttindi sjúklinga# (biðtími) frv., Flm. ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[18:57]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Með þessari setningu er verið að leggja til aukin réttindi sjúklinga og auðvitað er lagasetning þannig að hún miðast ekki endilega við daginn í dag og ástandið nákvæmlega í dag. Verið er að tryggja réttindi sjúklinga til lengri tíma. Þó svo að menn séu að stytta biðlistana núna, sem er mjög vel og ég er margbúinn að segja að er raunin, það er verið að stytta biðlistana, þá er ekki þar með sagt að það verði endilega í framtíðinni, við vitum það ekki. Þetta snýst um réttindi sjúklingsins, að þau séu til staðar þarna og það sé til framtíðar, ekki endilega að miða við ástandið eins og það er í dag þó ýmsir þurfi reyndar að bíða í dag lengur en þetta.

Nágrannaþjóðir okkar hafa séð ástæðu til þess að setja svona hámarksbið, náttúrlega mun styttri, kannski hefðum við átt að leggja til að hún væri bara tveir mánuðir eins og Danirnir en hérna erum við að fara hægar í sakirnar með því að koma inn svona ákvæðum um hámarksbið og ég verð að segja, herra forseti, að ég harma það að hv. þm., formaður heilbr.- og trn., sem hér talaði áðan og ég er að veita andsvar, skuli ekki taka undir þetta mikla réttindamál fyrir sjúklinga, að setja það inn í lög, heldur horfa aðeins á stöðuna eins og hún er í dag og líta til sannfæringar sinnar um að það verði ekki skorið niður og það verði ekki minni þjónusta og það verði ekki lengri biðlistar. Ef það verður ekki þá ætti að vera í lagi að setja svona hámarksbiðreglu inn í lögin ef hún er alveg sannfærð um að það verði ekki frekari bið. Það ætti ekki að saka. Það er verið að auka réttindi sjúklingsins.