Svar við fyrirspurn

Miðvikudaginn 11. febrúar 2004, kl. 13:33:13 (4065)

2004-02-11 13:33:13# 130. lþ. 62.91 fundur 315#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 130. lþ.

[13:33]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins vegna svars sem dreift var á Alþingi í gær við fyrirspurn sem ég lagði fram til hæstv. fjmrh. um starfslokasamninga undanfarin 10 ár. Hér hefur hæstv. fjmrh. ekki talið sér unnt að svara öllum þeim spurningum sem ég spyr hann en það er annað sem ég vildi gjarnan biðja hæstv. forseta að kanna og fá skýringar á og það er að það er mikið misræmi milli svars hæstv. fjmrh. og sams konar svars frá hæstv. forsrh. við fyrirspurn hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur frá því fyrir þremur þingum. Hún spyr þá um starfslokasamninga frá árunum 1995--2002 og hæstv. forsrh. kemst að þeirri niðurstöðu að þar hafi verið um að ræða 77 samninga sem ekki hafi verið samkvæmt kjarasamningum. Það hefur þá verið vikið frá samningum 77 sinnum.

Nú þegar ég spyr hæstv. fjmrh. um starfslokasamninga undanfarin 10 ár kemst hann að því að þeir séu aðeins 46, þ.e. 39 samningar við karla og 7 við konur. Mér finnst full ástæða til þess, virðulegi forseti, að fá upplýsingar um það hvað hefur orðið um þennan 31 samning sem hæstv. forsrh. taldi með í svari frá því fyrir þremur þingum.

Ég vil einnig að forseti þingsins kanni hvort ekki sé hægt að fá upplýsingarnar um það hvað þessir samningar kosta. Aðeins fjögur ráðuneyti treysta sér til að svara því hvað starfslokasamningar þeirra kosta. Öll hin ráðuneytin treysta sér ekki til að svara því. Svona upplýsingar hljóta að liggja fyrir þegar verið er að gera starfslokasamninga við opinbera starfsmenn og starfsmenn í ráðuneytunum. Ég fer fram á það að forseti kanni hverju það sætir að svörin eru svona mismunandi.