Svar við fyrirspurn

Miðvikudaginn 11. febrúar 2004, kl. 13:36:00 (4067)

2004-02-11 13:36:00# 130. lþ. 62.91 fundur 315#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), EKG
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 130. lþ.

[13:36]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ef það er vilji hv. 4. þm. Reykv. s. að fara einhverja fjallabaksleið að því að fá svör við þessum spurningum er auðvitað hægt að gera það með þeim hætti sem hv. þm. var að gera núna. Hv. þingmanni var það ljóst að hæstv. fjmrh. var ekki til staðar til að svara fyrir þetta mál sem hv. þm. var að vekja athygli á. Hæstv. fjmrh. hefur fjarvistarleyfi í dag og á morgun og verður þá tilbúinn til þess að ræða málið, væntanlega, eftir helgina við hv. þingmann ef hv. þingmaður kærir sig um það. En það er greinilegt að hv. þm. er ekki á höttunum eftir þessu svari, heldur er hv. þm. fyrst og fremst á höttunum eftir því að vekja athygli á sjálfri sér og þessu máli sínu vegna þess að hv. þm. er ekki að beina fyrirspurninni til þess hæstv. ráðherra sem málið varðar. Hv. þingmanni er það ljóst að hæstv. ráðherra gat ekki svarað fyrir þetta mál vegna þess að hann er ekki hér staddur. Það er að verða daglegur skrípaleikur í þinginu að hv. þingmenn komi hér upp til þess að ræða við hæstv. ráðherra sem eru ekki viðstaddir. (SJS: Laglegt að þeir eru ekki viðstaddir.)