Áform Landsbankans um að kaupa eða sameinast Íslandsbanka

Miðvikudaginn 11. febrúar 2004, kl. 13:58:00 (4075)

2004-02-11 13:58:00# 130. lþ. 62.95 fundur 319#B áform Landsbankans um að kaupa eða sameinast Íslandsbanka# (umræður utan dagskrár), BÁ
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 130. lþ.

[13:58]

Birgir Ármannsson:

Virðulegi forseti. Eins og þegar hefur komið fram í þessari umræðu er hér verið að fjalla um marga óorðna hluti þannig að það eru óskaplega mörg ,,ef`` í þessari umræðu.

Í fyrsta lagi er rétt að minna á að það hefur ekki komið skýrt fram hver áform stjórnenda Landsbankans eru í þessu máli. Það hefur ekki komið fram að sótt hafi verið um virkan eignarhluta í Íslandsbanka, og ekki liggur fyrir niðurstaða frá Fjármálaeftirliti ef um það verður sótt.

Það liggur fyrir að sterkar vísbendingar eru um andstöðu innan Íslandsbanka og auðvitað þarf tvo til við sameiningu eða samruna.

Það eru afskaplega mörg vafaatriði í málinu. Stór vafaatriði lúta að því hvernig eftirlitsaðilar munu taka á því. Viðskrh. vísaði til fordæmisins um hugsanlega sameiningu Búnaðarbanka og Landsbanka árið 2000 þar sem samruni var ekki talinn heimill á samkeppnislegum forsendum. Það gefur okkur vísbendingar --- auðvitað getum við ekki sagt með vissu hver niðurstaða Samkeppnisstofnunar yrði nú --- um að samruni af þessu tagi verði að teljast nokkuð ólíklegur, nema þá með afar ströngum skilyrðum.

Þau sjónarmið hv. 5. þm. Norðaust., málshefjanda, sem hann leggur upp með verða að teljast afar langsótt. Hann vísar til forsögunnar um einkavæðinguna og það er rétt að minna á í því samhengi að sá hv. þm. og flokkur hans hafa ávallt verið á móti einkavæðingu, hafa ávallt verið á móti þeirri aðferð sem hefur verið beitt við einkavæðingu, (SJS: ... forsrh.) alveg sama hvaða leiðir hafa verið farnar. Mismunandi leiðir hafa verið farnar í einkavæðingu hér á undanförnum árum en ég minnist þess ekki að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafi nokkurn tíma verið sáttur við þá aðferð sem farin hefur verið. (Gripið fram í.)