Áform Landsbankans um að kaupa eða sameinast Íslandsbanka

Miðvikudaginn 11. febrúar 2004, kl. 14:06:34 (4079)

2004-02-11 14:06:34# 130. lþ. 62.95 fundur 319#B áform Landsbankans um að kaupa eða sameinast Íslandsbanka# (umræður utan dagskrár), BH
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 130. lþ.

[14:06]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Frú forseti. Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af þeirri þróun sem nú er að eiga sér stað á íslenskum bankamarkaði og hún er ekki ákjósanleg fyrir íslenska neytendur. Nýjustu tíðindi þaðan eru ekki góð fyrir viðskiptavini hans. Þeir sjá nú fram á enn frekari samþjöppun og fákeppni, og úrræðalaus ríkisstjórn horfir í gaupnir sér. Gefist var upp á áformum um dreifða eignaraðild á markaðnum og markaðurinn er svo sannarlega að láta til sín taka. Neytendur horfa á í forundran.

Markmið ríkisstjórnarinnar með sölu ríkisbankanna hafa ekki náðst þegar kemur að ávinningi neytenda af breytingunum. Hlutabréfin átti að selja með það að markmiði að ná fram hagræðingu á markaðnum en tryggja um leið samkeppni til að ná fram ódýrari þjónustu. Samkeppnin á íslenska bankamarkaðnum er ekki virk. Fákeppniseinkenni eru mörg, vextir eru háir og vaxtamunur í samanburði við Evrópulöndin eru okkur verulega í óhag. Fyrir óheyrilega skuldsett heimili og fyrirtæki skiptir öllu máli að samkeppni fái að blómstra í þessum geira, og ríkisstjórnin er kölluð til ábyrgðar fyrir það úrræðaleysi sem hún sýnir í þessum málum.

Frelsið er nefnilega vandmeðfarið og á því hafa flest vestræn ríki fyrir löngu áttað sig. Eftirlitskerfið með leikreglum markarðarins þarf að vera öflugt og það þarf að vera í stakk búið til þess að takast á við þau verkefni sem því eru falin. Ríkisstjórnin hefur ekki verið tilbúin til þess að tryggja eftirlitsaðilum markaðarins það fjármagn sem þeir þurfa til að sinna því viðamikla verkefni sem þeim hefur verið falið þrátt fyrir margar tillögur þar um, m.a. af hálfu Samf. Við höfum líka lagt til að gerður yrði samanburður á vöxtum og þjónustugjöldum bankanna hér á landi samanborið við Evrópulöndin þannig að afla megi upplýsinga og leita orsaka fyrir hinu óhagstæða og dýra bankakerfi hér á landi. Þær tillögur hafa ekki fengið náð fyrir augum meiri hlutans.

Virðulegi forseti. Maður hlýtur að spyrja hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherra: Ætlar ríkisstjórnin virkilega að sitja úrræðalaus hjá og horfa á frekari samþjöppun og fákeppni eiga sér stað á þessum markaði? Það væri í hæsta máta ábyrgðarlaust eftir þau markmið sem lagt var af stað með af hálfu ríkisstjórnarinnar.