Áform Landsbankans um að kaupa eða sameinast Íslandsbanka

Miðvikudaginn 11. febrúar 2004, kl. 14:12:42 (4082)

2004-02-11 14:12:42# 130. lþ. 62.95 fundur 319#B áform Landsbankans um að kaupa eða sameinast Íslandsbanka# (umræður utan dagskrár), JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 130. lþ.

[14:12]

Jón Bjarnason:

Frú forseti. Þessi fyrirsögn í Fréttablaðinu í dag segir kannski margt um það hvernig þjóðfélagið upplifir fjármálamarkaðinn hér á landi: ,,Vígstaðan metin``. Þetta er yfirskrift hjá Fréttablaðinu um það sem er að gerast á fjármálamarkaðnum. Segir þetta ekki talsvert um hugarfarið, það græðgishugarfar sem þar ríkir?

Þegar SPRON og aðrir sparisjóðir voru í uppnámi um daginn sagði í Morgunblaðinu, með leyfi forseta, þann 23. desember:

,,Fákeppni eykst stórlega í íslenska fjármálakerfinu, þar sem augljóst er að bankarnir þrír munu skipta sparisjóðunum í landinu upp á milli sín og skiptir þá engu, þótt þeir haldi áfram að reka þá um tíma sem sjálfstæðar einingar undir þeirra hatti.``

Um sama efni sagði hæstv. viðskrh. í Ríkisútvarpinu 22. desember ljóst að löggjafinn sem slíkur gæti ekki komið í veg fyrir þróun og hagræðingu á fjármálamarkaði. Þetta sagði hæstv. viðskrh. sem hefur stýrt einna mestu einkavæðingu, samþjöppun og fákeppni í viðskiptum og atvinnulífi sem um getur í Íslandssögunni. Engu að síður varð að breyta lögum. Og af því að hv. þm. Birgir Ármannsson velti fyrir sér hver stefna Landsbankans væri leyfi ég mér að vitna til Benedikts Jóhannessonar á vefslóðinni heimur.is, með leyfi forseta:

,,Í greinargerð með tillögu til aðalfundar Landsbankans sem haldinn verður síðar í febrúar segir:

Bankaráð telur brýnt að áfram verði unnið að hagræðingu á íslenskum fjármálamarkaði með auknu samstarfi og samruna milli banka, sparisjóða og tryggingafélaga, sérhæfðra fjárfestingarfélaga á markaði og enn fremur að Landsbankinn haldi áfram að kanna mögulega aukningu á starfsemi erlendis.`` Í lok þessarar greinar segir Benedikt, með leyfi forseta: ,,Stefna bankans er því ljós. Ef Landsbankinn eignast ráðandi hlut í Íslandsbanka yrði það mikið áfall fyrir neytendur og ólíku saman að jafna við kaup KB á SPRON ...`` Hann lýkur greininni með þessum orðum: ,,Hins vegar verður að telja mjög ólíklegt að stjórnmálamenn hafi hugrekki til þess að bregðast við þessari yfirtöku.`` --- Og hafa þeir það?