Áform Landsbankans um að kaupa eða sameinast Íslandsbanka

Miðvikudaginn 11. febrúar 2004, kl. 14:17:25 (4084)

2004-02-11 14:17:25# 130. lþ. 62.95 fundur 319#B áform Landsbankans um að kaupa eða sameinast Íslandsbanka# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 130. lþ.

[14:17]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Mér er það að sönnu ljóst að það er viðkvæmt að vitna í hæstv. forsrh. Davíð Oddsson og það sem hann sagði um þessi mál á árinu 1998, viðkvæmt að vitna í áformin sem uppi voru og loforðin og svardagana um dreifða eignaraðild í ljósi þess sem síðan hefur gerst. Ég held að nýir þingmenn Sjálfstfl. verði að harka af sér og þola það þó að mönnum sé haldið við efnið.

Um það bil 3/4 af ræðu ráðherrans voru lofsöngur um ástandið eins og það er í dag þótt ljóst sé að öll hin upphaflegu markmið sem einkavæðingunni fylgdu úr hlaði eru úti í hafsauga. Það má spyrja: Úr því að þetta er allt svona gott núna, hvað var þá hæstv. forsrh. Davíð Oddsson að fara 1998? Hvað var hæstv. þáverandi viðskrh. Finnur Ingólfsson að fara? Hvað var ríkisstjórnin að fara? Var það allt saman óráðshjal sem þá var sagt um nauðsyn þess að dreifa eignaraðild að mikilvægum fjármálastofnunum, að tryggja að aðilar sem eru umsvifamiklir á öðrum sviðum viðskipta stjórnuðu ekki bönkunum með hagsmuni sína í huga en ekki almennings? Var þetta allt bara bull og vitleysa? Er einungis það satt og rétt sem hentar að segja í núinu í ljósi þess sem gerst hefur?

Eftir lofsönginn kom svo auðvitað venjulegur kafli um áhyggjurnar, um skort á siðferði, sem var í 100% mótsögn við 3/4 hluta ræðunnar sem á undan voru gengnir. En þannig hefur hæstv. ráðherra synt í gegnum þetta.

Einu getum við treyst --- að ekkert verður gert. Það verður ekkert gert. Það lengsta sem ríkisstjórnin gengur er að lýsa áhyggjum. Þegar hún finnur að þjóðinni ofbýður er lýst áhyggjum. Ef sérstaklega mikið hriktir í er stóra trompinu spilað út, skipuð nefnd. Þá er haft svo mikið við að það er skipuð nefnd.

En að það standi til að stugga við hagsmunum, einkahagsmunum þessara gæðinga ríkisstjórnarinnar sem eru aldir á jötunni, því getum við treyst að verður ekki.