Siglingavernd

Miðvikudaginn 11. febrúar 2004, kl. 14:38:55 (4087)

2004-02-11 14:38:55# 130. lþ. 62.6 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv., ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 130. lþ.

[14:38]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Hér er að mörgu leyti um merkilegt frv. að ræða. Það kveður á um siglingavernd og eins og hæstv. samgrh. gat um í framsöguræðu sinni tekur það til mjög margra sviða, að tryggja vernd skipa, áhafna, farþega, farms og síðast en ekki síst hafnaraðstöðu. Fyrir hverju á að tryggja þetta? Það á að tryggja vernd vegna ógnar af hryðjuverkum og öðrum ólögmætum aðgerðum.

Þarna er verið að innleiða heilmikið regluverk. Í frv. er gert ráð fyrir, þó að frv. sé ekki mjög stórt að vöxtum í sjálfu sér, 14 greinar, að reglugerðir og gjaldtökuheimildir fylgi löggjöfinni. Ég tel að þarna sé brugðist við því sem krafa er gerð um til að við getum stundað alþjóðaviðskipti og átt samskipti við hafnir í öðrum löndum. Auðvitað verður að fara eftir þeim reglum og alþjóðasamþykktum sem við höfum gerst aðilar að.

Hins vegar er margt sem þarf að athuga í þessu sambandi. Við munum auðvitað gera það þegar frv. kemur inn til samgn. Ég held að íhuga þurfi mjög vel kostnaðinn sem af þessu hlýst og gjaldtökuheimildir sem víða eru veittar til mjög margra aðila. Síðan þarf að gæta að því að þessi framkvæmd geti gengið smurt fyrir sig. Stjórnsýslan sem fjallar um þennan málaflokk er býsna flókinn. Þetta mál heyrir m.a. undir þrjú ráðuneyti og mun fleiri stofnanir. Það er auðvitað mjög mikilvægt að framkvæmdin geti gengið sem best fyrir sig.

Ég sat í gær fund Samtaka atvinnulífsins um þetta mál. Það má segja að almenn samstaða hafi verið um að nauðsynlegt væri að uppfylla þessar alþjóðlegu kröfur. Það er nauðsynlegt fyrir íslenskt atvinnulíf að standa að þessu á trúverðugan hátt þannig að allar reglur séu uppfylltar. En auðvitað hafa menn áhyggjur af kostnaðinum. Þegar svo margir aðilar eiga að koma að málinu er mikilvægt að menn vinni saman og sem minnstur aukakostnaður og umstang verði af þeim breytingum sem þetta hefur í för með sér. Menn verða að hafa augun mjög vel á því að fylgja þessu eftir.

Segja má að á þessum fundi hafi menn verið sammála um að halda kostnaði í lágmarki en fylgja jafnframt eftir þessum kröfum. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á hafa hafnirnar reynt að gera sér grein fyrir því hver þeirra kostnaður yrði. Reykjavíkurhöfn hefur nefnt 150--200 millj. sem breytingin muni kosta hana með stofnkostnaði. Satt að segja hef ég ekki mestar áhyggjur af Reykjavíkurhöfn. Stærsti hluti innflutnings landsmanna fer um þá höfn og fjárhagur hennar er mjög góður. Hún ætti að vera best í stakk búin til að takast á við þetta verkefni.

Hafnarfjarðarhöfn hefur gert ráð fyrir stofnkostnaði upp á 25--45 millj. og þó nokkrum árlegum rekstrarkostnaði, 25--35 millj. kr. eins og fram kemur í frv. Einn af þeim sem sat í vinnuhópnum sem undirbjó þetta mál var Hörður Blöndal sem gaf upplýsingar um það á fundinum að Akureyrarhöfn reiknaði með 15 millj. kr. stofnkostnaði og rekstrarkostnaði upp á 2,5 millj. kr. sem gæti haft í för með sér 10 þús. kr. gjald á hverja skipakomu miðað við núverandi fjölda skipa sem koma til Akureyrar, þ.e. 230 skip á ári.

[14:45]

Fleiri aðilar munu bera af þessu kostnað, og satt að segja vakti athygli mína umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. um kostnað þeirra opinberu embætta sem að þessu koma, m.a. að ríkislögreglustjóri skuli þurfa að vopnvæðast og það muni kosta um það bil 23 millj. kr. Kostnaður ríkislögreglustjóra er hvað mestur talinn vera í þessari umsögn en samkvæmt frv. fæ ég ekki betur séð en að aðkoma ríkislögreglustjóra sé hvað minnst.

Ég minnist þess frá umfjöllun um Schengen-málið, þegar við vorum að gangast undir það ágæta apparat, að mjög mikill kostnaður var hjá ríkislögreglustjóra vegna vopnvæðingar. Maður hlýtur eiginlega að velta fyrir sér hvort ekki sé til eitthvað í vopnabúrum lögreglunnar sem gæti nýst í þessu sambandi þannig að menn hefðu í huga þá hagræðingu og hagkvæmni sem við erum auðvitað og eigum öll að vera að leita eftir í ríkiskerfinu. Landhelgisgæslan telur sig ekki þurfa nema 9 millj. kr. í þetta og tollstjórinn 10 millj. kr. en Siglingastofnun, sem ber hitann og þungann af þessu og hefur unnið mjög gott starf við það að koma þessum reglum í eitthvert form, áætlar ekki nema 8 millj. kr. til sín.

Ríkislögreglustjóri þarf sem sagt 30 millj. kr., þar af 23 í vopnakaup. Ég held að það hljóti að verða hlutverk okkar í samgn. að fá nánari upplýsingar um þetta því að satt að segja vekur það mjög miklar efasemdir hjá mér um að þetta sé fullkomlega nauðsynlegt og við eigum auðvitað að íhuga mjög vel hvernig þessu fé er varið.

Eins og ég sagði er atvinnulífið, samkvæmt þeim fundi sem ég sat í gær, býsna jákvætt gagnvart þessu, þ.e. auðvitað telja menn þetta mjög nauðsynlegt og að mörgu leyti gott mál en allar varúðarreglur eru uppi um kostnaðinn og þá þann kostnað sem leggst á atvinnulífið, á neytendur þessa lands, með hækkandi flutningskostnaði sem af þessu leiðir og síðan auðvitað að hlutirnir geti gengið smurt fyrir sig. Meðal annars var á það bent að útflutningur á fiski þarf stundum að ganga býsna greiðlega fyrir sig og var nefnt til sögunnar að það líður stundum innan við sólarhringur frá því að fiskur er veiddur og þangað til hann þarf að vera kominn í flutningsfar til útlanda. Ef ég skil málið rétt þurfa farmpappírar að vera tilbúnir fyrsta sólarhringinn fyrir brottför skips til þess að fyllsta öryggis sé gætt. Þetta er auðvitað atriði sem við þurfum að íhuga hvernig geti gengið sem best fyrir sig þannig að það hafi ekki alvarlegar afleiðingar fyrir atvinnulífið og fyrir útflutninginn okkar.

Að öðru leyti þakka ég hæstv. samgrh. fyrir góða framsögu og góðar skýringar á þessu máli.