Siglingavernd

Miðvikudaginn 11. febrúar 2004, kl. 14:50:09 (4088)

2004-02-11 14:50:09# 130. lþ. 62.6 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 130. lþ.

[14:50]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Í 1. umr. um mál er gott að fá upplýsingar sem leiða til meiri skilnings á því sem um er að ræða og mig langar til að bera fram fáeinar spurningar. Mig langar að vita hvort sú sýn sem ég fæ í fljótu bragði á þetta mál er rétt eða röng. Við vitum nú af hverju þessi málefni eru tekin upp. Það er auðvitað hryðjuverkaárásin á Bandaríkin sem er upphafið að því sem hér er á ferðinni. Í fljótu bragði finnast mér samt viðbrögðin hér benda til þess að menn horfi fyrst og fremst á útflutningshagsmuni okkar og samskipti við útlönd en í 2. gr. frv. stendur, með leyfi forseta:

,,Markmið laga þessara er að tryggja vernd skipa, áhafna, farþega, farms og hafnaraðstöðu fyrir hvers kyns ógn af hryðjuverkum og öðrum ólögmætum aðgerðum.``

Það er svolítið öðruvísi orðað í skýringum með 2. gr. Þar stendur nefnilega, með leyfi forseta:

,,Markmið þessara laga er að tryggja vernd skipa, áhafna, farþega, farms, hafnaraðstöðu og þjóðfélagsins alls gagnvart hvers kyns ógn af hryðjuverkum eða öðrum ólögmætum aðgerðum.``

Þetta styður það sem ég var að segja áðan um að menn væru fyrst og fremst að horfa á þessar ráðstafanir í því ljósi að það þurfi að koma til móts við þessar kröfur vegna alþjóðasamninga okkar og útflutningshagsmuna en að ekki sé verið að hugsa um þetta út frá öryggishagsmunum í landinu. Ég spyr: Er þetta réttur skilningur? Ég spyr líka vegna þess að þegar skoðað er um hvað málið snýst, um hvaða skip verið er að tala, er mjög stór floti skipa sem kemur að og fer frá landinu á hverju ári sem þetta eftirlit á ekki við. Flutningaskip undir 500 tonnum eru t.d. ekki með í þessu. Reglurnar gilda ekki um þau og nánast ekki um --- það er fljótsagt að þetta snýst um flutningaskip yfir 500 brúttótonnum, farþegaskip og færanlega borpalla. Allar aðrar fleytur eru utan við þetta, og þær eru æðimargar sem koma að og frá þessu landi á hverju ári og eru jafnvel í reglulegum ferðum milli Íslands og annarra landa. Ef við værum að hugsa um einhverja hryðjuverkaógn gagnvart okkur --- nú tek ég það fram að málið lítur svona út fyrir mér þegar ég les það í fyrsta sinn --- sýnist mér að við séum ekki að gera mikið til þess að minnka ógn á Íslandi með þessum aðgerðum. En við erum sannarlega að draga úr möguleikunum á því að sprengjur verði sendar með farmi frá Íslandi til annarra landa. Ég ætla ekki að gera lítið úr því. Það má ekki taka það þannig að ég sé að setja mig á móti þessu máli. Ég vil fá staðfestingu á því að ég skilji það rétt sem verið er að leggja fyrir okkur.

Það er fleira sem mig langar að fræðast um. Þetta kostar mikla peninga. Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir fór yfir það áðan og ég ætla ekki að endurtaka það. Þetta kostar mikla peninga og í þessu frv. eru leiðir opnaðar fyrir þá sem bera af þessu kostnaðinn. Ég átta mig ekki alveg á því hvað verið er að fara. Ég spyr: Er öðrum höfnum en þeim sem taka að sér siglingavernd heimilt að innheimta gjaldið sem hér er nefnt í 9. gr.? Þar stendur nefnilega, með leyfi forseta:

,,Höfnum er heimilt að innheimta sérstakt gjald fyrir hvern farþega sem kemur til eða fer frá landinu með skipi.``

Þarna er ekki tekið fram að um sé að ræða þær hafnir sem annast siglingavernd. Á að líta þannig á að gjaldið, þ.e. þetta gjald á hvern farþega, sé þá heimilt að taka upp í öllum höfnum? Það er ástæða til að spyrja svona vegna þess að annars staðar er í þessum ákvæðum alltaf skýrt að um sé að ræða hafnir sem ætla að annast siglingavernd. Og um þær hafnir stendur að þeim sé heimilt að innheimta gjald fyrir hvert skip sem fellur undir þessi lög og getur gjaldið tekið mið af stærð skips, komufjölda o.s.frv. Þetta er heimildarákvæði þarna en síðan er orðalagið aftar í þessari grein svolítið öðruvísi og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um það. Þar stendur nefnilega, með leyfi forseta:

,,Gjaldtaka samkvæmt grein þessari`` --- og það ætti samkvæmt venjulegu orðafari að eiga við um alla greinina --- ,,skal í öllum tilfellum miðuð við að hún standi undir kostnaði við þá þjónustu sem veitt er og birt í gjaldskrám viðkomandi hafnar.``

Ég spyr: Hvort á að virða orðið skal eða orðið heimilt? Það getur skipt máli. Við höfum rekið okkur á það áður að það er auðvitað mismunandi skilningur á þessu tvennu.

Ég er svo sem ekki að halda því fram að það sé fært að koma á hryðjuverkavernd á Íslandi með þeim hætti að við getum verið örugg fyrir hryðjuverkum en ef þessi skilningur minn á frv. sem hér um ræðir er réttur megum við a.m.k. ekki senda þau skilaboð út í þjóðfélagið að við séum að vinna gegn hryðjuverkavá á Íslandi með þessu. Sé þetta svona erum við nákvæmlega ekki að því. Við erum hins vegar að búa til svolítið öðruvísi aðstæður fyrir þá sem hugsanlega vildu framkvæma eitthvað slíkt hér í landinu. En það er alveg á hreinu, skjalfest og klárt handa þeim hvaða leiðir þeir eiga að nota. Þeir eiga að nota flutningaskip undir 500 tonnum og aðrar fleytur en taldar eru í frv.

Þetta finnst mér vera mikilvægt að menn ræði og það komi skýrt fram hvað menn ætla sér í þessu. Ég endurtek að ég er ekki að lýsa því yfir hér að ég sé á móti því sem hér er lagt til en ég tel að nefndin þurfi að fara mjög vandlega yfir þetta mál og ég tek undir það sem hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir sagði um kostnaðinn. Ef þetta frv. er eingöngu hugsað til þess að uppfylla kröfur utan úr heimi til þess að við getum haldið áfram að flytja út er auðvitað best að gera það fyrir sem allra minnsta peninga. Öryggið sem við erum að sækja handa okkur í þessu efni er þá ekkert en að við ættum að geta séð til þess að ekki væri verið að senda sprengjur, eiturefni eða annað úr landi með útflutningi okkar án þess að kosta til þess óskaplega miklu. Við getum þá einbeitt okkur að því að gera það á sem hagkvæmastan hátt og spara sem allra mest í því.