Siglingavernd

Miðvikudaginn 11. febrúar 2004, kl. 14:59:29 (4089)

2004-02-11 14:59:29# 130. lþ. 62.6 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 130. lþ.

[14:59]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Virðulegi forseti. Við erum að ræða hér frv. til laga um siglingavernd og eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra er hér um nýtt hugtak að ræða í okkar tungu, siglingavernd. Ráðherra hefur gert ágæta grein fyrir málinu og tveir hv. þm. sem eiga sæti í samgn. ásamt þeirri sem hér stendur.

Mig langaði aðeins að koma inn í þessa umræðu og ætlaði einmitt að ræða það sem hv. þm. Jóhann Ársælsson kom svo ágætlega að. Við erum í rauninni ekki að vernda Íslendinga fyrir hryðjuverkum með þessari lagasetningu. Við erum að uppfylla alþjóðlegar kröfur í rauninni. Ég verð að segja eins og er að ég hef ákveðnar efasemdir um þessi vopnakaup. Ég veit ekki hverju þau eiga að skila eða þessi vopnvæðing hér á lögreglunni og öðrum. Það er alveg ljóst að hryðjuverkamenn sem ætla sér að fremja hryðjuverk gera það og þá fara þeir aðrar leiðir en þessar. Það er ljóst að þarna er búið að stoppa ákveðnar leiðir fyrir þá og þeir fara þá aðrar leiðir þannig að ég held að þetta verði ekki til að stöðva hryðjuverk í sjálfu sér. Þar fyrir held ég að hryðjuverkamenn hafi engan sérstakan áhuga á því að fremja hryðjuverk á Íslandi. Ég held að það sé ekki mjög eftirsóknarvert og það sé eiginlega eftir litlu að slægjast hér.

Ég held að við í nefndinni þurfum að skoða þessa þætti vel. Það er ekki það að ég sé ekki fullkomlega fylgjandi því að við uppfyllum alþjóðleg skilyrði um þætti eins og þessa en ég held að við þurfum að skoða málið vel.

Síðan langaði mig til að koma að tveimur þáttum. Annar varðar gjaldtökuna og hvort við séum að einhverju leyti að íþyngja ferðaþjónustunni, þá gagnvart þeim ferðamönnum sem koma sjóleiðis. Þá vil ég nefna skemmtiferðaskipin sérstaklega sem eru nokkuð stór þáttur í ferðaþjónustu okkar og hvort þarna sé verið að leggja sérstakt gjald á þá ferðamenn sem koma sjóleiðina hingað til lands.

Þó að það eigi kannski ekki alveg heima undir þessum lögum hefði ég gjarnan viljað heyra frá hæstv. ráðherra hver afstaða hans er í sambandi við þær kröfur sem verið er að gera í fluginu, um vernd flugsins gegn hryðjuverkum og kröfu Bandaríkjamanna um að vopnaðir verðir séu í flugvélum. Ég hef ekki heyrt hæstv. ráðherra úttala sig um það og hefði gjarnan viljað heyra það hérna. Þó að við séum að tala um siglingavernd á sú umræða alveg fullkomlega rétt á sér undir þessum lið af því að við erum að tala hér um hryðjuverkavána. Er ráðherrann sammála hæstv. dómsmrh. sem hefur lýst sig nokkuð fylgjandi því að settir verði vopnaðir verðir í íslenskar flugvélar? En það er kannski ekki alveg að marka, dómsmrh. er svo vopnaglaður og hernaðarlega sinnaður að það getur vel verið að það eigi annað við hjá hæstv. samgrh. Ég náttúrlega vona það vegna þess að ég er mjög andvíg því að setja vopnaða verði í flugvélar og tel það vera mun hættumeira en ógnina af hryðjuverkamönnum.