Siglingavernd

Miðvikudaginn 11. febrúar 2004, kl. 15:11:30 (4091)

2004-02-11 15:11:30# 130. lþ. 62.6 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv., JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 130. lþ.

[15:11]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv. til laga um siglingavernd ber á vissan hátt keim af nýjum og breyttum tímum í samfélagi okkar þar sem við verðum hér að bregðast við, auka öryggiseftirlit og framfylgja öryggiskröfum sem við höfum hingað til talið vera ónauðsynlegt. Það er slæmt til þess að vita að þróun heimsmála skuli vera slík að við finnum okkur knúin til þess að auka stöðugt vopnað eftirlit, vopnaða vernd, ef svo má kalla, og búast stöðugt við hinu versta. Það er dapurlegt að hugsa til þess ef svo er.

Ég held að það sé mjög mikilvægt, virðulegi forseti, að við nálgumst samt þessa umræðu sem aðrar með því að trúa á hið góða og ganga ekki lengra í þessum efnum en brýnustu nauðsyn ber til því að vopnuð vernd kallar yfirleitt á meiri og harðari vopnaðar árásir.

Mig langar til þess að spyrja hæstv. samgrh. hvort í þessum málum séu ekki í fyrsta lagi einhvers konar undanþágumöguleikar, undanþágu- eða frestunarmöguleikar og í öðru lagi hvort ekki sé hægt að flokka lönd og landsvæði undir mismunandi áhættustig þannig að minni viðbúnaðar væri þörf á landsvæðum þar sem maður gæti talið að minni ógn væri af alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi, en við henni er reynt að bregðast í frv. til þessara laga.

Mér finnst mjög eðlilegt að skoða slíkt og þá jafnframt að íslensk stjórnvöld skoðuðu líka hvort þau væru að auka áhættuna innan lands eða draga úr henni með aðgerðum sínum. Hér er vitnað til þess að frv. sé til komið vegna hryðjuverkaárásanna í Bandaríkjunum árið 2001. En gætum við ekki í samskiptum okkar við aðrar þjóðir einmitt dregið úr þessari áhættu. Það hefðum við t.d. getað gert með því að taka ekki þátt í innrásinni í Írak? Hversu mikið vorum við með því að auka hættuna hér, hættuna á því að hingað kæmu hryðjuverkasamtök? Hversu mikið vorum við að auka hættuna með því t.d. að gerast aðili að innrásinni í Írak? Mér finnst skipta miklu máli að íslensk stjórnvöld --- og hugsa ég að það sé í samræmi við þjóðarinnar í gegnum aldirnar --- vilji að við séum ekki aðilar að hernaðarátökum annars staðar á hnettinum. Það dregur athyglina að okkur og eykur hættuna á því að við drögumst inn í skipulegar hryðjuverkaaðgerðir á heimsvísu. Þetta finnst mér mjög mikilvægt.

Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir sagði réttilega áðan að ef það væri meintur og yfirlýstur vilji einhverra samtaka að koma hingað og gera alvarlegan usla þannig að heimsfriðnum eða öðrum löndum stæði ógn þá væru afar litlar líkur á að hægt yrði að koma í veg fyrir það. Öryggið verður því alltaf visst sýndaröryggi. Ég ætla samt ekki að draga úr því að mjög mikilvægt er að endurskoða stöðugt öryggismál hvað þetta varðar og tek ég alveg undir það. Hins vegar verða menn að gæta sín að fara ekki offari og halda að með vopnuðum vörnum hafnanna sé hægt að verjast öllum hugsanlegum slíkum aðgerðum ef ætlaðar eru. Það verður aldrei hægt. Fyrir íslenskt þjóðfélag er mjög mikilvægt að innleiða ekki þetta hugarfar í samfélag okkar.

[15:15]

Ég geri mér grein fyrir því að við þurfum að uppfylla ákveðnar alþjóðlegar skyldur og kvaðir í þessum efnum. Ég hygg að það sé verið að gera hér. Í framhaldi af því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Gilda sérreglur um útflutningshafnir svo önnur ríki geti tekið við vöruförmum eða skipum héðan? Gilda aðrar reglur um útflutningshafnir en hafnir sem taka á móti skipum sem koma til landsins, í einstakar hafnir á Íslandi, sem hafa farið í gegnum eftirlit í löndum sem þau koma frá?

Allar þessar aðgerðir, verði þær svo hryllilega umfangsmiklar og hér er verið að leggja til í þessu frumvarpi, munu fækka útflutningshöfnum á landinu. Þær munu a.m.k. gera þeim örðugt um vik við að vera samkeppnisfærar í útflutningi, ekki síst ef kostnaður við eftirlitið vex umtalsvert og lendir á viðkomandi höfnum og aðilum sem leita eftir þjónustu þeirra.

Í frv. er bara talað um kostnað þessara eftirlitsstofnana, ríkislögreglustjóra, Siglingastofnunar, tollstjóra og þeirra opinberu stofnana sem koma beint að eftirlitinu. En kostnaður vegna framkvæmdarinnar í einstökum höfnum, sem leggst á skip, farþega eða einstakar hafnir, er ekki tilgreindur. Hann er ekki tilgreindur. Það kemur aðeins fram að þessum aðilum sé heimilt að innheimta þennan kostnað sem þjónustugjöld með einum eða öðrum hætti. Að mínu viti, hæstv. ráðherra getur þá upplýst mig ef það er rangt, er ekki lagt mat á heildarkostnað þessa fyrir viðkomandi atvinnufyrirtæki og hafnir í þessu sambandi. Það má vel vera að þetta standi einhvers staðar í textanum. Ég hef ekki séð það, aðeins það sem lýtur beint að viðkomandi stofnun.

Við getum líka verið svo bjartsýn, virðulegi forseti, án þess að ég fari að blanda því beint inn í, að það verði friðvænlegra í heiminum eftir næstu forsetakosningar í Bandaríkjunum. Væri þá ekki tilefni til að hæstv. samgrh. mundi beita sér fyrir því að þessar reglur yrðu endurskoðaðar á alþjóðavísu, ef við mundum losna við þá þjóðhöfðingja sem standa með einum eða öðrum hætti að þeirri hernaðarhyggju sem er vaxandi í heiminum. Eins gæti, ef tækist að handsama háttsetta leiðtoga í hryðjuverkasamtökum, þessi ógn minnkað. Því hljótum við að óska eftir en ekki því að að trappa ástandið stöðugt upp.

Virðulegi forseti. Þetta verða lokaorð mín við þessa umræðu. Málið fer fyrir nefnd en ég tel að fara þurfi gætilega að þessu máli þannig að við sökkvum okkur ekki í laga- og reglufargan sem í fyrsta lagi hentar illa fyrir íslenskar aðstæður og kemur í öðru lagi til með að miða að aukinni hernaðarhyggju í samfélaginu sem okkur ber að forðast. Auk þess mun stóraukinn kostnaður leggjast á þá atvinnustarfsemi sem þarf að undirgangast þessi lög.

Ég spyr hæstv. ráðherra í lokin: Hvaða áhrif mun þetta hafa á fjölda og starfrækslu hafna vítt og breitt um landið? Það hlýtur að vera markmið okkar að halda sem flestar hafnir við landið sem geti veitt þjónustu bæði fyrir útflutning og innflutning.