Siglingavernd

Miðvikudaginn 11. febrúar 2004, kl. 15:22:11 (4092)

2004-02-11 15:22:11# 130. lþ. 62.6 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv., BJJ
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 130. lþ.

[15:22]

Birkir J. Jónsson:

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um siglingavernd. Það er umfangsmikið frv. Ég hef heyrt af máli hæstv. ráðherra og þeirra sem talað hafa að hér er um umfangsmikið mál að ræða.

Forsaga þessa máls er að samgrh. setti á fót stýrihóp í maí 2003 sem vann að innleiðingu siglingaverndar hér á landi. Í þeim hópi voru fulltrúar margra aðila, svo sem Siglingastofnunar Íslands, Landhelgisgæslunnar, ríkislögreglustjórans, tollstjórans, aðili frá Hafnasambandi sveitarfélaga, Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða og samgrn., fjmrn. og dómsmrn., auk formanns sem tilnefndur var af samgrh. Við sjáum að frv. sem hér er til umræðu snertir marga aðila og kemur verulega við hafnir landsins og þá starfsaðstöðu sem þær þurfa að byggja upp verði frv. sem hér um ræðir að lögum.

Markmið þessa frv. eru göfug. Þau eru að tryggja vernd skipa, áhafna, farþega, farms og hafnaraðstöðu gegn hvers kyns ógn af hryðjuverkum og öðrum ólögmætum aðgerðum, sem ég geri ekki lítið úr á tímum hryðjuverka. Með þessu er framfylgt alþjóðasamþykkt um siglingavernd í höfnum og á skipum.

Ég vil beina nokkrum spurningum til hæstv. ráðherra. Sú fyrsta lýtur að þeim undirbúningi sem hafnir landsins þurfa að ráðast í vegna þessara laga. Ég vil í því sambandi vitna í III. kafla sem er um hafnavernd. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Höfn sem kýs að þjóna skipum sem falla undir lög þessi skal skilgreina þá hafnaraðstöðu sem nýta á undir slíka starfsemi. Útbúa skal áhættumat fyrir hafnaraðstöðuna og verndaráætlun og bera undir Siglingastofnun Íslands til staðfestingar.``

Spurning mín til hæstv. ráðherra er um hvort einhver vinna sé í gangi, t.d. hjá Hafnasambandi sveitarfélaga eða öðrum aðilum, til að samræma þetta áhættumat og þá verndaráætlun sem hver höfn sem mun heyra undir þessi lög þarf að fylgja. Ég held að það muni fylgja þessu verulegur kostnaður og það væri til mikils að vinna ef þær hafnir landsins sem málið varðar gætu sameinast um grunnmódel sem hægt væri að byggja á. Þar af leiðandi yrði kostnaður einstakra hafna ekki eins mikill og ella væri.

Í 9. gr. frv. er fjallað um gjaldtöku og þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Gjöldin skulu ákveðin í gjaldskrá sem samgönguráðherra setur að tillögu Siglingastofnunar Íslands og skal gjaldtakan standa undir kostnaði við veitta þjónustu.``

Samkvæmt orðanna hljóðan getum við búið okkur undir það að í einhverjum tilvikum gæti orðið samkeppni milli hafnasamlaga í landinu um móttöku skipa. Svo virðist sem hafnirnar séu óbundnar af því hversu hárra gjalda þær krefjast. Ég skil þetta á þann veg að samkeppni muni verða á milli hafnasamlaga í landinu.

Hvað sem öðru líður hljóðar þetta frv. upp á að hafnasamlög og hafnir þurfi að greiða mikinn kostnað við að innleiða þessa löggjöf. Ég tek aftur á móti fram að hér er um þjóðréttarlega tilskipun að ræða og því er spurning hversu mikið svigrúm við höfum til að minnka tilkostnaðinn eða hve langan tíma við höfum til að innleiða þessar reglur.

Varðandi vinnu stýrihóps sem samgrh. setti á fót í maí 2003 vildi ég inna ráðherrann eftir því --- ég hef því miður ekki séð álit þess hóps eða niðurstöðu --- hvort sá hópur hafi skilað einróma niðurstöðu. Ég spyr hvort t.d. fulltrúi Hafnasambands sveitarfélaga hafi gert einhverja fyrirvara við niðurstöðu þess stýrihóps. Gott væri að fá upplýsingar um það. Ég hef heyrt, líkt og aðrir, að menn greini á um kostnað. Menn eru mishrifnir af þessari lagasetningu og mjög mikilvægt að sjá hvort þessi stýrihópur hafi verið samdóma í áliti sínu.

Hvað um það. Ég tel að við verðum í einu eða öðru formi að innleiða þessa tilskipun. Ég rak augun í það í athugasemdum með þessu frv. að þar segir, með leyfi forseta:

,,Hjá Evrópusambandinu liggja fyrir drög að reglugerð um siglingavernd. Þegar hún hefur öðlast gildi mun hún innleidd í íslenskan rétt samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.``

Eins og við vitum gerast góðir hlutir oft hægt, eins og einhvers staðar stendur. Ég spyr hæstv. ráðherra, þar sem við deilum örugglega þeim hugmyndum að hjá Evrópusambandinu gerist hlutir mjög hægt með það mikla regluverk sem þar er, hvort ráðherrann hafi upplýsingar um þessi drög að reglugerð. Hve langt er í að Evrópusambandið innleiði þessa reglugerð sem kemur þá væntanlega í tilskipunarformi? Verður þessi lagasetning okkar á undan Evrópusambandinu? Spurningin er hvar vinnan er stödd hjá Evrópusambandinu og hve langt er í að þessi reglugerð verði að veruleika. Ég held að menn þurfi að gefa sér góðan tíma í að innleiða þessi lög hér á landi og gott væri að fá upplýsingar um þetta.

Þetta frv. hefur nokkuð víða skírskotun. Það mun ná til fragtskipa, farþegaskipa og gámaflutninga og annars slíks og mun valda miklum tilkostnaði.

Varðandi kostnað af frv., hvað það muni kosta íslenska ríkið og hafnir landsins, segir í fskj. II frv. sem hér um ræðir, með leyfi forseta:

,,Samtals er því gert ráð fyrir að kostnaður við innleiðingu siglingaverndar í íslenskan rétt verði um 60 millj. kr., þar af er stofnkostnaður áætlaður um 40 millj. kr. og árlegur rekstrarkostnaður um 20 millj. kr.``

Hér er aðeins um kostnað ríkisins af reglunum að ræða. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort gerð hafi verið einhver áætlun eða úttekt um heildarkostnað fyrir íslenskt samfélag, þ.e. ríkis, hafna landsins og skattgreiðenda af þessari innleiðingu. Í þessari umsögn fjmrn. segir að ríkislögreglustjóri þurfi 23 millj. kr. til kaupa á vopnum og búnaði fyrir lögregluna og 7 millj. kr. vegna þjálfunar og kynningar lögregluembætta og vinnu við vottun verndarfulltrúa hafnanna. Ég spyr hvers lags vopn þetta eru. Það kemur ekki nákvæmlega fram. Gott væri að fá upplýsingar um það.

Eins og ég sagði áður áður væri gott að fá upplýsingar um hver kostnaður borgaranna í landinu, því að þetta varðar okkur öll, verður af því máli sem hér um ræðir. Það verður mjög kostnaðarsamt. Víða um land nefna menn háar tölur hvað varðar kostnaðinn sem þessu fylgir. Ég spyr hvort menn hafi ekki að markmiði í það minnsta að lágmarka þennan mikla kostnað. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort honum finnist koma til greina að við innleiðum þessa þjóðréttarlegu tilskipun á sama tíma og Evrópusambandið.

Ég ætla ekki að gera lítið úr öryggisráðstöfunum á þessari öld, öld hryðjuverka. Ég geri svo sannarlega ekki lítið úr markmiðum þessa frv. En ég tel, sem fulltrúi í samgn., að nefndin þurfi að fjalla mjög ítarlega um málið. Hér er um mjög stórt mál að ræða og ég býst við að nefndin muni fara mjög ítarlega yfir það.