Siglingavernd

Miðvikudaginn 11. febrúar 2004, kl. 15:32:18 (4093)

2004-02-11 15:32:18# 130. lþ. 62.6 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv., HBl
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 130. lþ.

[15:32]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er enginn vafi á því að það er óhjákvæmilegt fyrir Alþingi að taka þetta frv. hátíðlega og afgreiða það. Dreg ég ekki úr nauðsyn þess um leið og ég legg áherslu á að hv. samgn. hlýtur að fara mjög vel yfir frv. og gæta þar að einstökum atriðum sem varða framkvæmd siglingaverndar og ýmsa þætti aðra, bæði þá sem lúta að einstökum þáttum og þá sem lúta að kostnaði einstakra útgerðarfyrirtækja sem eiga viðskipti við hafnirnar. Hér er með öðrum orðum um það að ræða að hafnirnar standa frammi fyrir því í fyrsta skipti að þurfa að leggja í sérstakan kostnað til þess að mega afgreiða skip, ,,farþegaskip, þar með talin háhraðaför`` eins og segir, með leyfi forseta, í a-lið 2. gr. frv.

Enn fremur segir í 2. gr., með leyfi hæstv. forseta:

,,b. flutningaskip 500 brúttótonn eða stærri og

c. færanlega borpalla`` --- sem að vísu eftir atvikum getur ekki átt við nema kannski í Húsavíkurhöfn eða í Flatey norður, því að varla er við því að búast að olía finnist á öðrum stöðum á landinu.

Ekki dreg ég úr því að þegar svo er komið höfum við Norðlendingar nokkra ástæðu til að búast við því að við þurfum fremur að leggja Siglingastofnun lið en hún okkur um daglegan rekstur.

Þegar verið er að vinna að frumvörpum og reglugerð sem taka til atvinnulífsins er það að minni hyggju höfuðskylda framkvæmdarvaldsins hverju sinni að standa svo að málum að kostnaður viðskiptavina verði sem minnstur og að haga aðgerðum sínum með þeim hætti að ekki sé hugsanlegt að t.d. í opinberum rekstri verði afleiðingar ekki þær að enn meiri kostnaður en sá sem ríkið sparar sér falli á viðskiptavinina.

Nú geri ég mér í þessu dæmi ekki grein fyrir því hve mikill árlegur kostnaður Siglingastofnunar verður vegna þessa frv. Hér stendur í umsögn um frv. til laga um siglingavernd: ,,Stofnunin áætlar árlegan kostnað vegna siglingaverndarinnar u.þ.b. 8 millj. kr.``

Ekki er það há fjárhæð ef þetta er allur sá kostnaður sem fellur til vegna starfa Siglingastofnunar og væri fróðlegt að fá það alveg skýrt hjá hæstv. ráðherra hvort hér sé verið að tala um þann kostnað Siglingastofnunar sem ætlað er að ríkissjóður standi undir og greiddur sé af fjárlögum, eða er öll þjónusta Siglingastofnunar vegna þessa frv. sem hér liggur fyrir og þeirrar áætlunar sem hér liggur fyrir innifalinn í þessum 8 millj. kr.? Það er mjög nauðsynlegt fyrir okkur að fá um þetta að vita.

Ég vil í þessu sambandi vekja sérstaklega athygli þingheims á að í greinargerð hefur nefndinni sem skipuð var í maí 2003 og í eiga sæti, með leyfi hæstv. forseta, ,,fulltrúar frá Siglingastofnun Íslands, Landhelgisgæslu Íslands, ríkislögreglustjóra, tollstjóra, Hafnasambandi sveitarfélaga, Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða, samgönguráðuneyti, fjármálaráðuneyti og dómsmálaráðuneyti`` sérstaklega verið falið að kanna fjárhagsleg áhrif innleiðingarinnar.

Væri mjög fróðlegt að fá nokkuð gleggri hugmynd um hvernig það dæmi lítur út og við hverju megi búast í þeim efnum.

Ég get sem dæmi tekið út af þessum vangaveltum mínum --- ég geri mér með öðrum orðum ekki ljóst, ég segi það strax, hver umsvif Siglingastofnunar verða í helstu útflutningshöfnum landsins eftir að þessi lög um siglingavernd hafa gengið í gildi. Tökum t.d. Akureyri. Það er alveg ljóst að þangað koma tugir flutningaskipa á hverju ári. Farþegaskip eru í förum frá Eyjafjarðarsvæðinu til annarra landa. Það er búið að leggja niður starfsmenn Siglingastofnunar á Akureyri. Nú spyr ég: Miðað við þetta aukna umfang Siglingastofnunar sem gert er ráð fyrir í þessum lögum, hefði þá e.t.v. verið eðlilegt að halda starfsmanni Siglingastofnunar á Akureyri? Með öðrum orðum: Mun þessi breyting hafa það í för með sér að búast megi við því að starfsmaður Siglingastofnunar þurfi að vera í förum á milli Akureyrar og Reykjavíkur til að annast þessa þjónustu þegar til hennar kemur?

Á Akureyri er Vegagerð ríkisins til húsa og þar er hægt að hýsa einn eða tvo menn, ef svo ber undir, án þess að skrifstofukostnaður hækki við það að marki borið saman við það sem það kostaði í Reykjavík ef sama vinnan væri unnin þar. En á hinn bóginn á þetta ekki við um Austurland vegna þess að í þeirri hagræðingu --- það er talað um að sporöskjulaga, hvað heitir það? Ekki sporöskjulaga stofnanir heldur ... (Gripið fram í: Straumlínulaga.) Straumlínulaga stofnanir. Það er kannski gott að straumlínulaga Siglingastofnun, ég hugsa að það sé auðveldara en með margar aðrar. Þar var gert ráð fyrir því, um leið og ákveðið var að leggja niður starfsmenn Siglingastofnunar á Akureyri, að halda áfram rekstri Siglingastofnunar í Fáskrúðsfirði. Og ég er þakklátur hæstv. samgrh. fyrir að hafa gengið frá því, en samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef, og ég hef spurt um þetta mál, þá var ákveðið að sú starfsemi héldi áfram og auðvitað er ég ánægður yfir því.

Hin spurning mín víkur að Akureyri. Er til í dæminu að þau breyttu umsvif sem þetta frv. veldur geri það skynsamlegt og blátt áfram óhjákvæmilegt vegna kostnaðar að endurráða mann til Akureyrar við Siglingastofnun þar? Því við erum ekki aðeins að tala um Akureyrarhöfn, við erum að tala um allar Eyjafjarðarhafnir. Við erum að tala um Norðvesturland. Við erum að tala um Húsavík, en einnig frá Húsavík eru siglingar til annarra landa, m.a. með kísilgúr. Þetta er atriði sem ég hlýt að spyrja sérstaklega um.

Bæði í frv. sjálfu og í grg. með því er talað um sérstaka hafnaraðstöðu og lokaða hafnaraðstöðu, að fá aðgang að hafnaraðstöðu og þar fram eftir götunum. Í því kostnaðaryfirliti sem fylgir frv. er gert ráð fyrir að heildarstofnkostnaður vegna frv. sé 40 millj. kr. Þá spyr ég aftur: Erum við að tala um heildarstofnkostnað sem fellur á ríkið eða erum við að tala um þann heildarstofnkostnað sem yfirleitt fellur á hafnir landsins og aðra sem þurfa að hafa þessa öryggisgæslu með höndum?

Nú tek ég þetta svo að hér sé átt við heildarkostnað og af þeim sökum sé það svo sem ekki neitt sem fellur á hafnir eins og Akureyri. En ef svo skyldi ekki vera, ef maður hugsar sér að fyrir utan þetta standi sá kostnaður sem einstakar hafnir hafa af því að koma upp þessum öryggissvæðum, þá spyr ég hæstv. samgrh. hvort ekki sé ástæða til að gera ráð fyrir því að ríkið taki þátt í þeim kostnaði sem er í því fólginn að koma upp öryggissvæðum í höfnum sem eru þar vegna almannahagsmuna og almannaöryggis. Eigum við að gera ráð fyrir því, af því að hér er líka talað um legu, að t.d. Húsvíkingar geti ekki tekið á móti skemmtiferðaskipum sem vilja leggja þar úti í flóanum nema koma upp svo og svo stóru öryggissvæði eftir ströngum reglum? Og hvað segir um þetta atriði í þeirri athugun sem nefndin, sem ég vitnaði til áðan, gerði um kostnað af þessum sökum? Ég tek það svo að þessari nefnd hafi verið ætlað að sundurgreina kostnað í einstökum höfnum sem búist er við að vilji annast þessa þjónustu, að þar sé öryggiseftirlit.

Hvað eru margar hafnir úti á landi sem hæstv. samgrh. býst við að muni telja það áhugavert fyrir sig að geta fullnægt þeim kröfum sem settar eru samkvæmt þessum lögum? Það er að vísu alveg skýrt tekið fram að t.d. frystitogarar eru utan við þessa reglugerð. Frystitogari sem gerður er út frá Þórshöfn eða Grenivík, svo dæmi sé tekið, slíkur frystitogari sem héldi beint til annarra landa með eigin afla er ekki samkvæmt þessari skilgreiningu flutningaskip og hlýtur af þeim sökum að falla utan laganna. Er það ekki rétt skilið hjá mér?

Það er þannig, eins og hv. þm. vita, að tilhneiging er til þess að láta hafnir standa sjálfar undir þeim stofnkostnaði sem þar kemur. Ef við erum að tala um öryggisráðstafanir, lokun hafnarsvæða til þess að geta tekið við einstaka skipi sem kýs eða vill koma til hafnarinnar, umferð er með öðrum orðum mjög lítil, þá óttast ég að þær tekjur sem þvílík höfn kynni að hafa af afgreiðslu slíkra skipa hrökkvi ekki til til þess að standa undir stofnkostnaðinum, svo það sé alveg skýrt. En samkvæmt samkeppnislögum eru mjög strangar reglur og kvaðir settar á hafnirnar nú um það með hvaða hætti megi greiða niður þjónustu hafnanna og var raunar áréttað, ef ég man rétt, í hafnalögum á síðasta þingi.

[15:45]

Á hinn bóginn er ekkert sem kemur í veg fyrir eða bannar að staðið sé undir stofnkostnaði við mannvirki eins og hafnarmannvirki í hinum dreifðu byggðum, samkvæmt skilgreiningu Evrópusambandsins, og þess vegna alveg ljóst að samkvæmt reglum þess er ekkert því til fyrirstöðu að ríkið geti komið að stofnkostnaði hjá einstökum höfnum. Vil ég spyrja hæstv. samgrh., vegna þess að ég tel þessa umræðu mjög þýðingarmikla, hvað standi um þetta í þeim drögum að reglugerð um siglingavernd sem nú liggja fyrir hjá Evrópusambandinu? Er gert ráð fyrir því þar að í einstökum tilvikum á afskekktum höfnum, eigum við að segja t.d. í Norður-Noregi, Eystrasaltslöndunum, Portúgal, í einhverjum höfnum, sé beinlínis gert ráð fyrir því að úr sameiginlegum sjóðum sé staðið undir hluta kostnaðar?

Á bls. 23 í greinargerð með frv. er sérstaklega fjallað um hafnir. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Eins og sýnt er á mynd 2.1 er gert ráð fyrir að hafnir axli ábyrgð við framkvæmd hafnaverndar, þ.e. þær hafnir sem kjósa að þjóna millilandaskipum og uppfylla settar kröfur. Búast má við að töluverðan undirbúning og tíma þurfi til þess að gera höfnum þetta kleift. Hafnir þurfa að meta áhættu og útbúa áætlun um verndarráðstafanir.``

Síðan er talað um skilgreind hafnarsvæði sem uppfylli kröfur hafnaverndar þar sem það á við. Það er með öðrum orðum alveg ljóst að þarna getur fallið til nokkur kostnaður. Ég geri ekki ráð fyrir að í allri þeirri veltu sem er t.d. í Hafnarfjarðarhöfn eða Reykjavíkurhöfn sé þetta verulegur kostnaður. Ég skal ekki segja miðað við þau umsvif sem eru á Akureyri og eins og þar stendur á hvernig sá kostnaður fellur til.

Ef við á hinn bóginn horfum til hafna þar sem enn þá minni umferð skipa er, enn þá minni rekstur, getur þetta orðið tilfinnanlegt og í einstaka tilfellum e.t.v., ég hef ekki vit á því af því að ég hef ekki séð tölur, viðkomandi sveitarfélögum um megn. En hafnir eru við getum sagt æðar sem flytja byggðarlögunum næringu, ekki aðeins með því að bera afla að landi heldur einnig með því að skemmtiferðaskip geta lagst utan við hafnirnar og það er einmitt sérstaklega talað um skipalegu í frv.