Siglingavernd

Miðvikudaginn 11. febrúar 2004, kl. 15:50:01 (4094)

2004-02-11 15:50:01# 130. lþ. 62.6 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv., HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 130. lþ.

[15:50]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóri Blöndal fyrir hans ágætu ræðu og var ekki annað að heyra á þingmanninum en að það fari ekki að verða seinna vænna að setja á stofn embætti olíumálaráðherra.

En vegna þess að þingmaðurinn spurðist nokkuð fyrir um kostnað, m.a. stofnkostnað við þessar aðgerðir, 40 millj. kr. sem tilgreindur er í texta og ræddi síðan um kostnað einstakra hafna svo sem Reykjavíkurhafnar og var ekki kunnugt um hann, vildi ég bara nota tækifærið, þar sem ég er varaformaður stjórnar Reykjavíkurhafnar, og upplýsa þingmanninn um hvað þetta þýðir fyrir hafnir í þéttbýlinu. Áætlað er að stofnkostnaðurinn einn vegna þessara aðgerða í Reykjavíkurhöfn nemi 250 millj. kr., hvorki meira né minna, og að árlegur rekstrarkostnaður sem þetta kallar á muni nema um 195 millj. kr. Ég held að það sé því alveg ótvírætt að jafnvel í tilfelli stórrar og umsvifamikillar hafnar, eins og Reykjavíkurhöfn er, sé um að ræða umtalsverðan og tilfinnanlegan kostnað sem mun segja til sín í kostnaði við vöruflutninga til og frá landinu. Það er óhjákvæmilegt.

Að öðru leyti þakka ég hv. þm. fyrir hans ágætu ábendingar.