Siglingavernd

Miðvikudaginn 11. febrúar 2004, kl. 16:25:29 (4097)

2004-02-11 16:25:29# 130. lþ. 62.6 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 130. lþ.

[16:25]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir þær undirtektir sem ég fékk við spurningu minni um hvort hugsanlegt væri að starfsmaður Siglingastofnunar yrði sérstaklega ráðinn til starfa á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu ef í ljós kæmi að það væri hagkvæmt og stæði undir sér. Ráðherra sagðist mundu hafa það sérstaklega til athugunar. Ég tel að það sé fullnægjandi svar við þeirri fyrirspurn sem ég bar fram við þau efni. Þá ber auðvitað líka að hafa í huga að ýmis önnur störf falla til á þessi svæði en þau sem beinlínis snúa að siglingavernd, hin venjulegu störf sem starfsmenn Siglingastofnunar hafa unnið á Akureyri. Það hlýtur að verða tekið allt saman í heild sinni og metið hvort hagkvæmt sé að endurvekja starfsmann við Eyjafjarðarsvæðið. Ég tek það svo að hann hafi staðfest það og jafnframt að áfram verði rekið útibú frá Siglingastofnun á Fáskrúðsfirði.

Ég hef áreiðanlega, eins og stundum áður, komist vitlaust að orði í fyrri ræðu minni þegar ég talaði um kostnaðinn en út af því sem hæstv. ráðherra sagði vil ég segja að ég tek umsögn fjmrn. svo að ætlast sé til að árlegur rekstrarkostnaður upp á 20 millj. kr. verði tekin af fjárlögum. Þessi umsögn lýtur að því hver verði útgjöld ríkisins ef frv. verður samþykkt. Ég tek það svo að stofnkostnaður verði 40 millj., kannski í ýmsum ráðuneytum, sem falli á ríkissjóð og rekstrarkostnaður að fjárhæð 20 millj. kr., eins og málið er lagt fyrir Alþingi.