Siglingavernd

Miðvikudaginn 11. febrúar 2004, kl. 16:29:54 (4099)

2004-02-11 16:29:54# 130. lþ. 62.6 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 130. lþ.

[16:29]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Hvað varðar 9. gr. frumvarpsins og gjaldtökuheimildirnar þá er nokkuð skýrt í huga mínum að þar er um að ræða heimildir til að innheimta gjöld. Verði þær heimildir nýttar er gert ráð fyrir að einungis kostnaðurinn við viðkomandi þjónustu verði innheimtur samkvæmt gjaldskrá. Ef mönnum þykir þetta óljóst er alveg sjálfsagt að samgn. fari betur yfir það atriði og geri orðalagið ótvíræðara áður en það verður að lögum.

Hvað varðar spurninguna um hvort aðrar þjóðir séu að taka þetta upp er ljóst að þar er um alþjóðasamþykktir að ræða sem Alþjóðasiglingamálastofnunin tók upp strax í kjölfar hryðjuverkanna. Gert er ráð fyrir því að innleiða þær fyrir 1. júlí á þessu ári þannig að undan því verður ekki vikist. Allt í kringum okkur er unnið hörðum höndum við að skilgreina þetta og stilla upp verndaráætlunum í höfnum. Það liggur ljóst fyrir hvernig því er háttað og ég held að við Íslendingar eigum mjög mikið undir því að sá skilningur sé ótvíræður hjá þeim þjóðum sem eiga í siglingaviðskiptum við okkur, að hér séu hlutirnir í góðu lagi og óhætt að taka við skipum sem héðan koma. Við eigum mjög mikið undir því að svo sé.