Siglingavernd

Miðvikudaginn 11. febrúar 2004, kl. 16:33:40 (4102)

2004-02-11 16:33:40# 130. lþ. 62.6 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv., HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 130. lþ.

[16:33]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér þykir nokkuð stórt upp í sig tekið þegar hæstv. samgrh. segir að þær tölur sem ég fór með hér um kostnað í Reykjavíkurhöfn við umræðuna séu fjarri öllu lagi. Þær tölur, 250 millj. kr. í stofnkostnað og 195 millj. kr. í árlegan rekstrarkostnað í Reykjavíkurhöfn, eru einfaldlega mat sem færustu embættismenn Reykjavíkurhafnar hafa lagt á þann kostnað sem þar verður. Til þessa hafa þeir verið þekktir að vandaðri áætlanagerð og ég hef ekki ástæðu til annars en að treysta þeim tölum.

Ég get hins vegar staðfest þann skilning ráðherrans að þar sem talað er um 195 millj. kr. árlegan kostnað er verið að afskrifa og kostnaðarreikna stofnkostnaðinn inni í þeirri tölu þannig að í sjálfu sér er kostnaðurinn tvítalinn með því að tala um stofnkostnaðinn annars vegar og árlegan rekstrarkostnað hins vegar. En á hinn bóginn er hér verið að nálgast kostnað í Reykjavíkurhöfn þannig að það er líka verið að nálgast kostnað skipafélaganna sjálfra. Það breytir því ekki að hér er um verulegan kostnað að ræða, verulegan samfélagslegan kostnað, sem mun auðvitað hafa áhrif á kostnað við inn- og útflutning á vöru og þjónustu.

Ég vildi bara halda því til haga, virðulegur forseti, í umræðunni að þetta eru þær áætlanir sem nú eru uppi. Það er mjög mikilvægt að menn reyni eftir því sem kostur er að halda þessum kostnaði í skefjum vegna þess að, eins og fram hefur komið við umræðuna, verður hann ekki til vegna okkar eigin þarfa heldur vegna þrýstings utan frá.