Útgáfa rita um sögu stjórnarráðsins 1964--2004

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 10:35:22 (4105)

2004-02-12 10:35:22# 130. lþ. 63.1 fundur 511. mál: #A útgáfa rita um sögu stjórnarráðsins 1964--2004# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[10:35]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Hv. þm. bregður ekki af vana sínum og þarf að krydda mál sitt með skætingi í restina. Ég læt það fram hjá mér fara. En það er komin fyrirspurn. Fyrsti liður fyrirspurnarinnar er svohljóðandi:

,,Hver er áætlaður kostnaður við útgáfu Sögu stjórnarráðsins 1964--2004? Hversu mikill kostnaður er þegar til fallinn?``

Í fjárlögum 2000--2004 hafa verið veittar 59,6 millj. kr. til ritunar og útgáfu verksins. Nú liggur fyrir að kostnaður verður nokkuð minni eða um 54 millj. kr. og er að stærstum hluta áfallinn. Í árslok 2003 höfðu verið greiddar 44 millj. kr. vegna útgáfunnar. Það er rétt að geta þess að tvö rit af þremur eru komin út og þriðja kemur út í júnímánuði.

Í annan stað er spurt hvernig þessi kostnaður skiptist. Forsrh. og ritnefndin kynnti á blaðamannafundi í nóvember árið 2000 væntanlega ritun sögu Stjórnarráðs Íslands. Þar kom fram að Sumarliði Ísleifsson sagnfræðingur hefði verið ráðinn til að ritstýra verkinu og að sex fræðimenn hefðu verið ráðnir til að fjalla um einstaka þætti verksins. Einnig kom fram að áætlaður kostnaður við söguritunina fram að útgáfu bókanna væri áætlaður 40 millj. kr. Frá upphafi var áhersla lögð á vandaða útgáfu og höfundur verksins ætlaði að leggja á sig ítarlegar rannsóknir í þeim tilgangi. Kostnaður við verkið fram að útgáfu er 40 millj. kr. líkt og áætlað var í upphafi. Af þeirri fjárhæð eru 37,5 millj. kr. sem runnið hafa til höfunda, ritstjóra og ritnefndar, 1,5 millj. kr. vegna ljósmynda og 1 millj. kr. ýmis kostnaður. Kostnaður við umbrot, prentun og bókband er áætlaður um 14 millj. kr. Í framangreindum fjárhæðum er ekki tekið tillit til sölutekna en á þessari stundu er ekki unnt að áætla þær með neinni vissu. Þóknun til þriggja ritnefndarmanna eru greidd samkvæmt úrskurði þóknunarnefndar, þóknun til nefndarmanna til ársloka 2001 nam 340 þús. kr. með launatengdum gjöldum. Greidd þóknun til nefndarmanna árið 2002 nam 590 þús. kr. með launatengdum gjöldum. Þóknunarnefnd á eftir að úrskurða þátt ritnefndarmanna fyrir árin 2003 og 2004 og verður beiðni þess efnis send þóknunarnefnd þegar nær dregur að loknum starfstíma ritnefndar. Störf ritnefndar hafa einkum falist í lestri handrita á milli funda. Ritlaun til höfunda verksins nema alls 24 millj. kr. Samningar vegna ritunar eru í öllum aðalatriðum eins. Gengið var til samninga við sex höfunda um samtals 72 mánaða vinnu til rannsókna og 12 mánaða vinnu við frágang, samtals 84 mánuðir. Viðmiðunargreiðsla var 250 þús. kr. fyrir hvern mánuð. Miðað var við fræðimannataxta Félags háskólakennara til 1. janúar árið 2000 auk viðeigandi álags þar sem um verktakasamninga var að ræða.

Eftir að samningarnir voru gerðir breyttust taxtar Félags háskólakennara verulega. Var síðan samið um að höfundar fengju leiðréttingar vegna taxtabreytinga og verðlagsbreytinga. Leiðréttingar svöruðu til 12 mánaða greiðslu samtals til höfunda eða samanlagt 3 millj. kr. vegna fyrrnefnds tímabils. Frá þessu var gengið munnlega.

Varðandi ritstjóra var viðmiðunargreiðsla ögn hærri en hjá höfundunum eða tæplega 300 þús. kr. að meðaltali en greiðslur ritstjóra hækkuðu nokkuð í árslok 2002 í samræmi við samkomulag hans við ritnefnd. Ritstjóri var í hálfu starfi til 1. júní 2002. Samhliða hefur hann verið í hálfu starfi sem höfundur en í fullu starfi eftir það. Samtals var hann ritstjóri í 38 mánuði frá því síðla árs 1999 til ársloka 2003. Áætlað er að við bætist þrír til fjórir á árinu 2004.

Loks er spurt hvernig verktöku Sögufélagsins við útgáfuna er háttað. Sögufélagið er útgefandi verksins. Sögufélagið ber ábyrgð á dreifingu verksins að undanskilinni forsölu til annarra en eigin félagsmanna. Þá tekur Sögufélagið að sér að sjá um kynningu verksins í fjölmiðlum í tengslum við útgáfuna og standa fyrir ráðstefnu- eða málfundum.