Endurskoðun á framfærslugrunni námslána

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 10:48:38 (4110)

2004-02-12 10:48:38# 130. lþ. 63.2 fundur 104. mál: #A endurskoðun á framfærslugrunni námslána# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., GunnB
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[10:48]

Gunnar Birgisson:

Virðulegi forseti. Mér finnst rétt að leggja aðeins orð í belg við þessa umræðu til upplýsingar fyrir hv. þingmenn. Skerðingarhlutfall hefur breyst frá árinu 1991 þegar vinstri menn voru við stjórn þessa sjóðs og stjórn menntamála á Íslandi úr 70% og er núna 35%. Það fúnkerar þannig að orðið er hvetjandi að afla sér tekna. Það hefur líka sýnt sig að tekjur námsmanna hafa aukist á þessum tíma.

Þá ber einnig að taka fram að frítekjumark hefur hækkað og börn á leikskólaaldri eru á forgangslista hjá sveitarfélögum bæði varðandi forgang á plássum og líka varðandi gjöld á plássum þannig að ég fullyrði að við erum að fjalla hér um eitt besta námsaðstoðarkerfi í heiminum. Við eigum að vera stolt af því og ekki sífellt að vera að gagnrýna það eins og hér er verið að reyna að gera.