Endurskoðun á framfærslugrunni námslána

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 10:50:38 (4112)

2004-02-12 10:50:38# 130. lþ. 63.2 fundur 104. mál: #A endurskoðun á framfærslugrunni námslána# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[10:50]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson):

Ágæti forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir umræðuna um þetta ágæta og brýna mál. Eftir stendur að könnun á grunnframfærslu hefur ekki farið fram í tæp 30 ár og það er brýnasta málið. Því brýni ég hæstv. ráðherra að beita sér fyrir slíkri könnun.

Margt ágætt hefur verið gert og vel og vissulega hefur ýmislegt verið fært til bóta og í rétta átt. Eftir stendur að til þess að hægt sé að færa rök fyrir því að lánasjóðurinn standi með sannfærandi hætti undir því hlutverki sínu að vera jöfnunarsjóður sem tryggi jafnrétti til náms og jafnan aðgang allra að námi þá verður slík könnun að fara fram og engin ástæða er til að trassa það áratugum saman að fram fari slík könnun til að tryggja það að sjóðurinn endurspegli raunþarfir námsmanna til að framfleyta sér og sínum í námi þannig að þeir geti stundað nám á viðunandi hátt án þess að þurfa að bæta ofan á lántökur úr Lánasjóði íslenskra námsmanna rándýrum bankalánum á okurvöxtum úr bankakerfinu, eins og liggur fyrir mörgum að gera sem ekki hafa í digra sjóði heima fyrir að leita.

Það sem brýnast er að gera að mínu mati, ágæti forseti, er að hækka enn frekar frítekjumarkið og hvetja þannig fólk enn þá frekar til að afla sér góðra tekna á sumrin, í fríum og á milli anna í skólanum. Ég held að mikilvægast af öllu sé að fólk geti aflað sér talsverðra tekna enda er hverjum manni ljóst að 300 þús. kr. eru afar lág upphæð til framfærslu, til að fleyta sér yfir vetrarmánuðina með einungis 77.500 kr. á mánuði hjá Lánasjóðnum. Þetta endurspeglar ekki raunveruleikann og því brýni ég hæstv. ráðherra til að beita sér fyrir því að þessi 30 ára gamla könnun verði gerð.