Endurskoðun á framfærslugrunni námslána

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 10:52:49 (4113)

2004-02-12 10:52:49# 130. lþ. 63.2 fundur 104. mál: #A endurskoðun á framfærslugrunni námslána# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[10:52]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu. En ég vil undirstrika það sem kom áðan fram í svari mínu, að framfærslugrunnur námslána er endurskoðaður árlega, framfærslugrunnur Hagstofunnar er endurskoðaður árlega í góðu samstarfi milli þeirra aðila sem sitja í stjórn sjóðsins, annars vegar námsmannahreyfingarinnar og hins vegar þeirra sem sitja í stjórn sjóðsins fyrir hönd stjórnvalda. Samstarfið hefur því fram til þessa verið gott við hina árlegu endurskoðun á framfærslugrunni frá Hagstofunni.

Ég vil líka undirstrika það sem m.a. kom fram í ræðu hv. þm. Dagnýjar Jónsdóttur að fyrir liggur alveg skýrt og skorinort í stjórnarsáttmálanum að við munum stefna að því að endurskoða lögin um LÍN og þar verður þetta atriði að sjálfsögðu tekið til endurskoðunar eins og endurgreiðslurnar sem kveðið er einnig á um í stjórnarsáttmálanum.