Laganám

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 10:57:21 (4115)

2004-02-12 10:57:21# 130. lþ. 63.3 fundur 216. mál: #A laganám# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[10:57]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson hefur beint til mín eftirfarandi spurningu, með leyfi forseta:

,,Hefur ráðherra í hyggju að beita sér fyrir samræmingu náms í hefðbundinni lögfræði?``

Þegar þeirri spurningu er velt upp hvort ráðherra hafi í hyggju að beita sér fyrir samræmingu náms í hefðbundinni lögfræði er mikilvægt að hafa í huga þau meginsjónarmið sem liggja að baki þeirri löggjöf um háskóla sem í gildi er hér á landi.

Í frv. því sem varð að lögum um háskóla frá árinu 1997 kemur fram að með þeim séu dregin saman þau meginskilyrði sem skólastofnun þarf að uppfylla til að geta talist háskóli og veita háskólagráðu við námslok. Kveða skal nánar á um starfsemi hvers háskóla í sérlögum, reglugerð, starfsreglum, samþykktum eða skipulagsskrá hvers skóla.

Mikilvægur þáttur í gildandi háskólalögum og sérlögum um ríkisháskóla er sjálfstæði háskólanna --- ég undirstrika: sjálfstæði háskólanna --- sem felst m.a. í því að þeir ákveða sjálfir innihald þess náms sem þeir bjóða upp á. Hins vegar kveða háskólalögin á um þau almennu skilyrði og kröfur sem háskólastofnanir þurfa að uppfylla til að geta boðið upp á háskólanám. Dæmi um það eru lögbundnar hæfniskröfur til stjórnenda og kennara á háskólastigi auk lögbundins stjórnskipulags.

Í 8. gr. laga um háskóla segir síðan að yfirstjórn hvers skóla taki ákvörðun um fyrirkomulag kennslu, náms og námsmats og um skipulag rannsókna. Samkvæmt 9. gr. laganna skal kennsla í háskólum fara fram í námskeiðum sem metin eru í einingum og telst fullt nám 30 einingar á námsári að jafnaði og endurspeglar alla námsvinnu nemenda og viðveru í kennslustundum. Jafnframt segir í greininni að námi á háskólastigi skuli ljúka með prófgráðu sem veitt sé þegar nemandi hefur staðist próf í öllum námskeiðum og skilað með fullnægjandi árangri þeim verkefnum sem tilheyra námi til prófgráðunnar. Menntamálaráðherra skal síðan gefa út skrá um viðurkenndar prófgráður og inntak þeirra.

Rammalögin um háskóla byggja þannig á því að innihald náms sem boðið er upp á í hverjum háskóla sé ákveðið af skólanum sjálfum enda má ætla að þar sé á ferðinni einn veigamesti þátturinn í því sjálfstæði sem hver háskólastofnun býr við. Inntaki námsins er því ekki miðstýrt af menntmrh. En á móti segir í 2. mgr. 6. gr. háskólalaga að tryggja skuli að inntökuskilyrði í háskóla og námskröfur svari jafnan til þess sem krafist er í viðurkenndum háskólum á sambærilegu sviði erlendis. Lögin kveða á um eftirlit stjórnvalda með kröfum til náms á háskólastigi á þann hátt að menntmrh. setur reglur um með hvaða hætti hver háskóli skuli uppfylla skyldur sínar um eftirlit með gæðum kennslunnar, hæfni kennara og hvernig ytra gæðaeftirliti skuli háttað. Slíkar reglur eru í gildi og á grundvelli þeirra fer fram gæðaeftirlit með háskólakennslu og því námi sem háskólarnir bjóða upp á.

Vegna fyrirspurnar hv. þm. má benda á að innan tíðar verður gerð úttekt á kennslu og námi í þeirri góðu lagadeild sem við hv. þm. útskrifuðumst bæði frá við Háskóla Íslands. Stefnt er að því að ljúka henni á þessu ári og þess má vænta að í framhaldinu verði gerðar sambærilegar úttektir á lagadeildum annarra háskóla hér á landi.

Þegar spurt er hvort ég hafi í huga að beita mér fyrir samræmingu náms í hefðbundinni lögfræði þá hlýt ég að benda á í samræmi við það sem ég hef rakið hér að ofan að háskólalögin gera ekki ráð fyrir að menntmrh. standi fyrir slíkri samræmingu frekar en t.d. vegna náms í hjúkrunarfræði, viðskiptagreinum og kennaramenntun þar sem fleiri en einn háskóli bjóða nám til prófgráðu í þeim greinum hér á landi. Skólarnir sem bjóða þetta nám hafa ekki séð ástæðu til þess að hafa það samræmt heldur sé svigrúmið nýtt til mismunandi útfærslu til þess að fjölga valkostum nemenda og auka samkeppni. Ekkert er því hins vegar til fyrirstöðu, ekki neitt, að slík samræming geti orðið á milli háskóla, m.a. milli þeirra háskóla sem bjóða upp á laganám hér, kjósi þeir það og ekki þarf atbeina menntmrh. til þess.