Fjármagn til rannsókna við háskóla

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 11:11:25 (4121)

2004-02-12 11:11:25# 130. lþ. 63.4 fundur 353. mál: #A fjármagn til rannsókna við háskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[11:11]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir spyr mig eftirfarandi spurninga:

,,1. Hvaða vinnureglum fylgir ráðuneytið við úthlutun fjármagns til rannsókna við háskóla?``

Ákvarðanir um fjárveitingar til rannsókna við háskólann hafa jafnan byggst á hefð, hlutverki og verkefnum hvers skóla um sig. Formlegar vinnureglur umfram verklag við gerð fjárlaganna hafa ekki verið settar um úthlutun fjár til rannsókna. Í fjárveitingum til einstakra skóla hefur verið við það miðað að þar séu stundaðar rannsóknir í þeim mæli sem kveðið er á um í lögum, reglum eða skipulagsskrám skólanna sjálfra.

Háskóli Íslands, þar sem mest af háskólarannsóknum eru stundaðar hér á landi, hefur fengið fjárveitingar til rannsókna á grundvelli sérstaks rannsóknasamnings. Sá samningur var fyrst gerður árið 2001 og var það nýmæli. Slíkur samningur hefur ekki verið gerður við aðra háskóla fram að þessu. Í undirbúningi við gerð samnings um kennslu við aðra skóla á háskólastigi er gert ráð fyrir svokölluðu rannsóknarákvæði þannig að skólarnir fá ákveðið grunnframlag til að fjármagna rannsóknir og innra þróunarstarf en að öðru leyti taki þeir þátt í samkeppni um vaxandi rannsóknafé. Hafa verður í huga að þróun náms á háskólastigi hefur verið mjög hröð hér á landi á undanförnum árum og fjárframlög til háskólakennslu aukist jafnt og þétt. Það má geta þess að frá árinu 2000 hafa fjárframlög til háskólastigsins aukist um tæp 50%.

Til skoðunar hefur verið í ráðuneytinu að úthluta fjármagni til rannsókna í háskólum á grundvelli mælanlegs árangurs. Sérstaklega er horft til samkeppnissjóða þar sem háskólar geta í samstarfi við aðra skóla, rannsóknastofnanir eða einir sér sótt um styrki til skilgreindra rannsóknarverkefna. Ákvörðun um styrkveitingu verður eftir sem áður byggð á ströngu hlutlægu mati á gæðum þeirra rannsókna sem berast og verður einkum byggð á hörðum kröfum vísindasamfélagsins til viðurkenndra vísindalegra verkefna. Í fjárlögum fyrir árið 2004 er gerð grein fyrir auknum framlögum til opinberra samkeppnissjóða sem styrkja rannsóknir á kjörtímabili ríkisstjórnarinnar. Þar er gert ráð fyrir að miða við ráðstöfunarfé til samkeppnisrannsókna árið 2003 verði um rúmlega tvöföldun að ræða í áföngum fram til ársins 2007. Þannig verður árlegt ráðstöfunarfé samkeppnissjóða á vegum menntmrn., sjútvrn. og iðnrn. um 1.700 millj. kr. árið 2007 en voru 792 millj. kr. árið 2003. Þeir sjóðir sem um ræðir eru Rannsóknasjóður, Tækniþróunarsjóður, Tækjakaupasjóður, aukið verðmæti sjávarfangs, nefnt oft í daglegu tali AVS, og Rannsóknarnámssjóður. Hver hlutur háskólanna verður hvers um sig ræðst af gæðum umsókna sem þeir senda frá sér. Það er verkefni vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs að útfæra úthlutunarstefnu Rannsóknasjóðs sem tryggir hlut háskólanna á grundvelli þeirrar heildarstefnu sem liggur fyrir.

Hv. þm. spyr einnig:

,,2. Er það til skoðunar innan ráðuneytisins að ráðast í heildstæða stefnumótun og heildstætt mat á úthlutun fjármagns til rannsókna við háskóla, m.a. með tilliti til aukins jafnræðis milli háskóla og með tilliti til framlaga til einstakra rannsóknasviða á vettvangi háskólanna?``

Vísinda- og tækniráð Íslands hóf starfsemi sína á þessu ári og þann 18. desember sl. var samþykkt stefna stjórnvalda á sviði vísinda og tækni sem byggir á víðtæku samráði þar sem leitað hefur verið sjónarmiða atvinnulífs og háskólastofnana í samvinnu við ráðuneytið. Í stefnunni er gerð grein fyrir meginviðfangsefni vísinda- og tæknistefnu og áherslu stjórnvalda á endurbótum á umgjörð rannsókna- og þróunarstarfs í landinu.

Eitt þriggja meginatriða í vísinda- og tæknistefnunni er að efla háskólana sem rannsóknastofnanir og auka samkeppni um opinberar fjárveitingar til háskólarannsókna. Hvað varðar háskólana er unnið að breytingum á fyrirkomulagi fjárveitinga til rannsókna á háskólastigi. Stefnt er að því að háskólum verði tryggt ákveðið grunnframlag til að fjármagna rannsóknir og innra þróunarstarf háskólanna en að öðru leyti taki þeir þátt í samkeppni um opinbert og annað rannsóknafé. Þannig er miðað við að aukin framlög til samkeppnissjóða skapi háskólunum ný sóknarfæri um leið og þeim er veitt aðhald sem í samkeppninni felst.

Grunnframlaginu til háskólanna vegna rannsóknastarfsemi er ætlað að tryggja að þeir geti af fullum krafti tekið þátt í samkeppni um ráðstöfunarfé samkeppnissjóða sem vaxa nú hraðar en áður. Af hálfu fjárveitingavaldsins eru breytingar af þessu tagi nauðsynlegar til að tryggja að fjármunir nýtist vel og lúti markvissri forgangsröð innan háskólanna sjálfra svo og sjóða sem styrkja rannsóknir.

Vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs mun fjalla um útfærslur á þessari meginstefnu sem varðar háskólarannsóknir og vinna náið með ráðuneytinu að málinu. Umfjöllun nefndarinnar stendur til vors. Ráðuneytið hefur hafið athuganir á fjárstreymi til æðri menntunar og rannsókna við háskólastofnanir og verður því samanburður á rauntölum mikilvægt hjálpartæki þegar fjallað er um ákvörðun á grunnframlagi til einstakra stofnana.