Fjármagn til rannsókna við háskóla

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 11:16:38 (4122)

2004-02-12 11:16:38# 130. lþ. 63.4 fundur 353. mál: #A fjármagn til rannsókna við háskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[11:16]

Björgvin G. Sigurðsson:

Ágæti forseti. Hérna er hreyft við einum helsta vaxtarsprota háskólastigsins, sem er rannsóknir og framhaldsnám. Brýnt er að koma á skýrum og gagnsæjum vinnureglum til að sjálfstæðu skólarnir viti hvað þeim stendur til boða og hvað þeir geta, hver hlutur þeirra geti orðið í rannsóknum og framhaldsnámi.

Til marks um þá miklu aukningu og mikilvægi sem framhaldsmenntun og rannsóknir hafa á háskólastiginu er hægt að taka fram að fjöldi framhaldsnema hefur tólffaldast í Háskóla Íslands. Árið 1995 stunduðu 100 nemar nám í einhvers konar meistara- eða framhaldsnámi við Háskólann, í dag eru þeir 1.250. Það er tólfföldun á fáum árum en á sama tíma hafa framlög til rannsókna við Háskólann minnkað miðað við nemendafjölda. Nú jafngildir það 47 kr. á hvern nemanda meðan það er 1 kr. til kennslu. Þessu verður að breyta.