Fjármagn til rannsókna við háskóla

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 11:17:50 (4123)

2004-02-12 11:17:50# 130. lþ. 63.4 fundur 353. mál: #A fjármagn til rannsókna við háskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KJúl
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[11:17]

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka ágæt svör frá menntmrh. og fagna því að þessi mál séu í einhvers konar farvegi.

Ég vil brýna hana hvað það varðar að formlegu verklagi verði komið á innan menntmrn. við þessa úthlutun. Hefðin er ágæt en hún nægir ekki ein og sér. Hér er um gríðarlega fjármuni að ræða sem við erum að setja í rannsóknir. Eins og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson kom inn á eru rannsóknir einn helsti vaxtarsprotinn hér á landi til framtíðar.

Hæstv. menntmrh. kom inn á samkeppnissjóðina og styrkingu þeirra, að háskólarnir muni geta sótt þangað aukið fjármagn til rannsókna. Það er vel og verður spennandi að sjá hvernig það kemur út. En eftir stendur nýleg yfirlýsing frá rektorum sjálfstæðu háskólanna þar sem beinlínis er farið fram á að gerður sé við þá sams konar rannsóknarsamningur og við Háskóla Íslands og að jafnræðis sé gætt við úthlutun á rannsóknarfé. Þeir bera sig þar saman við Háskóla Íslands þannig að einhvers staðar hefur þessum skólum verið gefið undir fótinn með að þetta standi þeim til boða.

Ég tel að þessi skólar eigi inni skýr svör hvað þessi mál varðar vegna þess að við gerum þær kröfur til þeirra að þeir séu með skýra og gagnsæja áætlanagerð. Þá hljótum við að gera sömu kröfur til menntmrn. þegar kemur að þessum málum. Skólarnir verða að vita þetta fyrir fram með góðum tíma, bæði stjórnendur við áætlanagerð og framtíðarnemendur sem þurfa að velja sér háskólanám.